132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:41]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar tekjur ríkissjóðs voru 100 milljarðar voru þjóðartekjurnar rúmlega 300 milljarðar. Núna eru þjóðartekjurnar rúmlega 1.000 milljarðar þannig að þetta hlutfall hefur hvergi skerst. (Gripið fram í.) Það er nokkurn veginn nákvæmlega það sama. Því miður hefur ekki tekist að lækka það. En við erum þó að reyna það í ár sem sést á því að samneyslan helst innan við 2% mörkin á meðan hagvöxturinn er ætlaður um 6%. Á móti kemur hins vegar að hið opinbera, sem sé sveitarfélögin, eru aðeins í hærri gír. Þau eru að auka sig aðeins meira þannig að í heildina (Gripið fram í.) er hið opinbera að halda mjög svipaðri tölu. Þetta er því alrangt. Við höldum hér lægri ríkisútgjöldum en hjá Norðurlandaþjóðunum. Þær eru mjög svipaðar og í Norður-Evrópu. Okkur hefur tekist það. Það hefur alls ekki vaxið. Það er bara rangt vegna þess að hið íslenska samfélag hefur verið að vaxa mjög mikið. Þökk sé því að við erum hér með frjálst efnahagskerfi, frjálsa verðmyndun og frjáls viðskipti.