132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:02]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það einkennir ræðu hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar að hann hefur yfirleitt meiri áhyggjur af málefnum annarra flokka, og þá sérstaklega Framsóknarflokksins, en málefnum eigin flokks. En ég vil þakka fyrir fyrirspurnina.

Það er staðreynd mála, og hefur komið fram í samtölum við Samtök aldraðra, að kjör aldraðra sem minnst hafa haft úr býtum hafa aukist langmest. Ríkisstjórnin hefur verið að beita sér í þeim efnum, nú standa t.d. yfir viðræður milli ríkisstjórnarinnar og samtaka eldri borgara. Auðvitað hljótum við að leggja áherslu á að þeir sem verst standa í þeim hópi fái hlutfallslega mest. Það verður ekki deilt um það að þróunin síðustu ára hefur verið sú að ríkisstjórnin hefur beitt sér frekar fyrir því að þeir sem lægstan lífeyri hafa fái hlutfallslega meira en þeir sem meira hafa. Ég er sammála þeirri stefnu og ég vona að hv. þingmaður sé sammála því. Við gerðum samning við Öryrkjabandalag Íslands upp á 1 milljarð á þann hátt að þeir sem yrðu öryrkjar snemma á lífsleiðinni fengju hlutfallslega meira en þeir sem hefðu áunnið sér lífeyri og hefðu örkumlast síðar á ævinni. Ég er félagshyggjumaður. Ég er t.d. ekki endilega talsmaður þess að menn skerði endalaust samhjálpina en ég verð var við það t.d. hjá þingmönnum Samfylkingarinnar að menn vilja hefta samneysluna í samfélaginu og menn skulu átta sig á hvað það þýðir. Það verður erfiðara að jafna kjörin í þjóðfélaginu með því áframhaldi. Ég veit t.d. að ég og hæstv. forseti erum sammála í þeim efnum að við viljum standa vörð um samneysluna. En ég hjó eftir því, til að mynda við 1. umr. fjárlaga, að þá talaði einn samfylkingarþingmaður um að ríkissjóður bólgnaði út. Það hefur ekki þótt neikvætt í eyrum okkar framsóknarmanna fram á þennan dag.