132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:07]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafna því algjörlega að um svik hafi verið að ræða við öryrkja á sínum tíma. Við höfum rætt það mál oft og ítrekað í sölum Alþingis. Tekjur öryrkja voru auknar á annan milljarð króna og kjör margra öryrkja stórbötnuðu fyrir vikið. Hvað varðar málefni eldri borgara þá erum við sammála, ég og hv. þingmaður, að auðvitað eigum við að einbeita okkur að þeim sem lægstan lífeyri hafa. Það er enginn ágreiningur um það og verið er að vinna að því máli, það mál er í athugun, þannig að okkur fleytir fram á flestöllum sviðum.

Hv. þingmaður getur ekki deilt um það að kaupmáttur almennings hefur stóraukist á umliðnum árum. Reyndar hafa tekjur sumra aukist meira en annarra en hvað eigum við hv. þingmenn að gera t.d. í því launaskriði sem nú á sér stað innan bankakerfisins? Vill hv. þingmaður setja lög á það? Auðvitað eykst misskipting við það að stór hópur, hundruð manna í íslenska bankakerfinu sem orðið er hluti af alþjóðlegu kerfi hefur hækkað í launum. (Gripið fram í.) Á að setja lög á það að bankastofnanir geti veitt svo há laun? Málið er að kjör allra hafa batnað á síðustu tíu árum. Um það er ekki deilt. Kjörin hafa batnað mismikið en nú stöndum við að því að lækka skattálögur á almenning. Við höfum t.d. fellt niður eignarskattinn af eldri borgurum í landinu. Okkur vegnar vel á flestöllum sviðum. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar reyna að einblína á einhverja neikvæða þætti sem eru mjög fáir. Auðvitað má alltaf finna eitthvað í fjárlagafrumvarpi sem er upp 330 milljarða kr. Skárra væri það. En okkur gengur vel í öllum meginatriðum. Allir hafa það miklu betra en árið 1995. Staða ríkissjóðs er miklu betri og þjóðfélagið hefur vaxið á öllum sviðum. Atvinnuleysi er nær því ekkert, vanskil heimilanna hafa aldrei verið minni og vanskil atvinnulífsins hafa eiginlega aldrei verið minni. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður, okkur gengur því vel.