132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:41]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem upp í andsvar við hv. þm. Helga Hjörvar og vil taka undir með honum þegar hann fagnaði stöðunni á vinnumarkaðnum. Það er vissulega rétt og þar kom ríkisstjórnin myndarlega að verki og má þakka fyrir hve vel það stendur. Hann ræddi líka um skatttekjur og ég spyr hv. þingmann: Vill hann ganga til baka með lækkun skatta í því ferli sem þeir eru núna? Er hann á móti því að við lögðum niður eignarskattinn? Og hvað varðar einkaneysluna, er hv. þingmaður að kalla eftir einhverri ríkisskömmtun? Því er nú þannig háttað að fólk ræður hvað það gerir, það ræður hvort það skuldsetur sig, hvort það kaupir hús, hvort það kaupir bíl. Það er mikið verslað í dag en ég er hrædd um að uppi yrði ramakvein ef skömmtun yrði á því hvað mætti kaupa af bílum eða húsum í landinu.

Ég er sammála honum varðandi virðisaukaskatt á matvæli. Við vinnum að því að lækkaður verði virðisaukaskattur á matvæli. (Gripið fram í: Af hverju er það þá ekki gert?) Það er verið að vinna að því í ríkisstjórninni, hv. þingmaður. En þegar þingmenn Samfylkingarinnar tala um Evrópuverð á matvælum þá spyr ég: Hvert er Evrópuverð á matvælum? Er sama verð á matvælum í Eystrasaltslöndunum, í Danmörku, í Grikklandi? Hvað er verið að tala um? Ég skil einfaldlega ekki þetta Evrópumatarverð sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru ævinlega með á vörunum.