132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:45]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki nokkur andstaða hjá Framsóknarflokknum varðandi virðisaukaskatt á matvæli. Þetta er einfaldlega í vinnslu ásamt öðrum skattalækkunum sem við erum þegar búin að ákveða. Það hefur margoft komið fram í umræðunni, ekki reyndar í dag heldur áður, að þetta er samkomulagsatriði. En hvenær það verður er ekki ljóst. Það er ekki er hægt að gera alla hluti í einu.

Þegar hv. þingmaður talar um að misskipting sé í landinu talar hann um leið á móti því að sett var þak á fæðingarorlofið. Þar vill hann ekki jafna niður á við, það er því svolítið talað út og suður í þessu.

Þegar rætt er um einkaneyslu og skuldir fólks vil ég halda því til haga að við sjálfstæðismenn viljum ekki koma með skömmtunarkerfi eins og var hér eftir stríðsárin og foreldrar okkar muna eftir, að fólk varð að standa í biðröðum eftir að kaupa bleyjur, sykur og hveiti. Eða þegar ákveðnir útvaldir höfðu leyfi til að kaupa bíla. (Gripið fram í.) Þetta er eitthvað sem við viljum ekki sjá aftur en ég heyri ekki annað en þetta sé það sem Samfylkingin vilji setja á, þ.e. skömmtunarkerfi á fólk.