132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:47]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var ekki annað að heyra á lokaorðum hv. þingmanns en hana skorti heldur efni í seinna andsvar sitt því auðvitað ætlar þingmaðurinn það ekki að hér séu á þingi einhverjir þeir flokkar manna sem vilji koma upp skömmtunarkerfi og óþarfi yfir höfuð að ræða um slíkar fullyrðingar, svo fjarri eru þær öllum veruleika.

En misskiptingin sem hv. þingmaður talaði um verður æ alvarlegri. Það er auðvitað fullkomlega óboðlegt að hv. þingmaður og flokksmenn hennar skulu hafa létt af sjálfum sér heilum mánaðarlaunum í skatta á hverju ári en aukið skattbyrði hinna lægst launuðu um heil mánaðarlaun á sama tíma.

Ég fagna því að hv. þingmaður lýsir því yfir að samkomulag sé um matarskattinn og aðeins spurning um tíma hvenær hann komi til framkvæmda. Minni hlutinn í Framsóknarflokknum hlýtur þá að hafa verið beygður á bak aftur og ekki annar tími til að setja fram lækkun á matarskatti en í síðasta fjárlagafrumvarpi þessarar ríkisstjórnar sem lagt verður fram á hausti komanda. Við treystum því þá að yfirlýsingar hv. þingmanns og oddvita Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi um að matarskatturinn verði lækkaður um helming á þessu kjörtímabili og þá í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2007, standi og það megi treysta orðum og yfirlýsingum hv. þingmanns svo að Framsóknarflokkurinn hafi loksins verið beygður af Sjálfstæðisflokknum í þessu máli.