132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:06]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vonandi fær hæstv. ráðherra þá ósk sína uppfyllta að staða ríkissjóðs verði enn betri. Mér heyrist sem betur fer að hæstv. ráðherra vilji reyna að stíga skref í þá átt að fjárlög verði eins og önnur lög, þ.e. að það verði eftir þeim farið nákvæmlega og þau segi okkur nákvæmlega hver staðan er.

Það var t.d. býsna athyglisvert þegar hæstv. ráðherra fór yfir stærstu liðina sem færðir eru yfir, þ.e. plúsmegin yfir áramót, vegna þess að þetta eru upplýsingar sem við höfum m.a. verið að biðja um að fá. Við höfum beðið um stöðu stofnana og hverjar þær yrðu væntanlega um næstu áramót þannig að við vissum í raun hvað fjárlögin væru að segja okkur um rekstur þessara stofnana. Þessar upplýsingar hafa því miður ekki legið fyrir.

En ég vona, í anda þess sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan, að við megum búast við því að strax á næsta hausti og kannski, ef vel verður að verki staðið, fyrir 3. umr. fjárlaga að fá þessar upplýsingar þannig að hægt sé að átta sig á því hvaða fjárlög við erum að samþykkja, þ.e. inn í hvaða mynd við erum að fara á komandi ári.