132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:19]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá að hafa mína skoðun út af fyrir mig og er ánægður með það. En ég vil halda aðeins áfram með þá umræðu sem hér fór fram áðan, þ.e. þær hugmyndir sem Samfylkingin hefur lagt fram.

Það er rétt hjá hv. þingmanni Helga Hjörvar að hér eru fyrst og fremst um að ræða táknrænar tillögur. Þær breyta fjárlagafrumvarpinu ekki mikið, nettóáhrifin eru um það bil 1% eða svo. En hér er fyrst og fremst lögð áhersla á mál sem við viljum leggja áherslu á, þ.e. velferðarmál, byggðamál og menntunarmál. Þetta viljum við leggja áherslu á og við sýnum það á táknrænan hátt. En við tókum þá meðvituðu ákvörðun að jafnvel þótt full ástæða hefði verið til að endurskrifa fjárlagafrumvarpið þá gerðum við það ekki.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Í ljósi þess afgangs sem nú er gert ráð fyrir, heldur hæstv. fjármálaráðherra því fram að sá afgangur dugi til að slá á gengisþróun (Forseti hringir.) undanfarinna missira?