132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:54]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði um ummæli mín varðandi vexti Seðlabankans. Það liggur fyrir að Seðlabankinn er sjálfstæður í ákvörðunum sínum en það tekur ekki valdið af öðrum að hafa skoðanir á því hvað Seðlabankinn er að gera og ekki heldur frá forsætisráðherranum.

Ég get endurtekið að ég tel málum vera þannig háttað að ekki sé tilefni til frekari vaxtahækkana heldur fremur til lækkunar. Hverjar eru ástæðurnar? Það eru verðbólgumælingar í nóvember, væntingar um verðbólgu í desember, það eru þeir samningar sem náðst hafa á vinnumarkaði, það eru þær staðreyndir sem blasa við á húsnæðismarkaði, hjöðnun, vaxtahækkanir sem hafa verið á húsnæðismarkaði, það er olíuverð í heiminum sem hefur farið lækkandi og síðast en ekki síst liggur það fyrir að við erum að afgreiða fjárlög með miklum afgangi á næsta ári, yfir 20 milljarðar, og verið er að staðfesta mikið aðhald í ríkisfjármálum. Ég býst við því að þar sé fremur um varkárar spár að ræða í sambandi við tekjur fremur en hitt. Ef eitthvað er þá finnast mér a.m.k. líkur á því að tekjurnar gætu orðið ívið meiri.

Auðvitað er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að hið háa gengi krónunnar hefur valdið erfiðleikum í ákveðnum greinum. Sem betur fer hefur orðið nokkur breyting síðustu missirin á gengi krónunnar og liggur alveg ljóst fyrir að gengið mun breytast á næstunni. Þessi sveifla hefur verið útflutningsatvinnuvegunum óhagstæð en það er einhvern veginn þannig að þegar vel gengur og þegar gengið er hátt hjá þjóðfélaginu þá er gengið almennt hátt.