132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[19:00]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þau eru nú að fara í gamalkunnan farveg þessi skoðanaskipti okkar, að því leyti til að við virðumst meta hlutina með býsna ólíkum hætti, ég og hæstv. forsætisráðherra. Mér finnst hann áfram hafa mikla tilhneigingu til að fegra fyrir sér stöðuna. Hæstv. ráðherra virðist trúa því að þetta ástand geti bara haldið áfram sisona, að eilífu. Ég taldi mig hafa farið hér rækilega yfir það, og minnsta kosti rökstutt það fyrir mitt leyti, þannig að ég get ekki gert það mikið betur, að það er ekki hægt að keyra þjóðarbúið á þessum nótum áfram. Jafnvægisleysið er svo mikið. Það er það sem menn eru að segja og skrifa um. Álykta um. Þannig að við verðum að horfast í augu við það hvernig ástandið er. Það breytist ekkert þó menn gefi því falleg lýsingarorð og tali um mikinn uppgang og uppsveiflu og mikinn hug í mönnum. Þetta er svona. Við erum að reka þjóðarbúið í miklu ójafnvægi, safna miklum skuldum og það er mat flestra að þeim mun lengur sem þetta ástand varir þeim mun harkalegri verði timburmennirnir þegar veislunni lýkur, ef nota má þá líkingu. Þeim mun harkalegri verði þá aðlögunin, ef menn vilja kalla það svo. Nú er jafnvel verið að spá því að það sé ekkert alveg á næstunni sem hlutirnir fari að breytast. Íslandsbanki metur það t.d. svo, hverra verðbólguspár ég vitnaði, vel að merkja, til hér áðan, að Seðlabankinn sé ólíklegur til að fara að lækka vexti fyrr en þá í fyrsta lagi á síðari hluta næsta árs. Þeir spá að vísu ekki beinlínis vaxtahækkun en þó má velta því fyrir sér hvort ekki sé verið að gefa í skyn að Seðlabankinn kunni enn að hækka vexti í eitt, tvö skipti áður en þetta getur farið að snúast við. Þannig að ég er ekki viss um að þetta sé allt saman eins slétt og fellt og hæstv. forsætisráðherra vill vera láta eða að líkurnar á mjúkri lendingu, sem hann kallar svo, séu eins miklar og hann virðist trúa.