132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[21:15]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum fjárlög fyrir árið 2006 við 2. umr. og þá aðallega álit hv. fjárlaganefndar um frumvarpið og þær breytingar sem hún gerir á því.

Það verður fyrst að segjast að þetta er afskaplega ánægjuleg niðurstaða, frú forseti. Afgangurinn vex um 5,4 milljarða upp í 19,6, tæplega 20 milljarða, og það er ekki ónýtt til hliðar við Seðlabankann í baráttunni við verðbólguna að skila ríkissjóði þessum afgangi sem er um 2% af landsframleiðslu. Þetta er afskaplega góð niðurstaða og ég held að það séu ekki mörg lönd í heiminum eða í Evrópu a.m.k. sem skila slíkum afgangi. Fyrir utan það að á yfirstandandi ári erum við að horfa upp á yfir 100 milljarða í lánsfjárafgang. Það er því virkilega verið að gera mikið til að aðstoða Seðlabankann í baráttunni við verðbólguna.

Eins og ég hef oft rætt er starf fjárlaganefndar aðallega fólgið í því að standa í alls konar úthlutunum í framkvæmdir. Ég tel það ekki rétta stefnu, frú forseti, þar sem Alþingi er löggjafarsamkunda og er reyndar með fjárveitingavald en á að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu, hvernig það ráðstafar fjárveitingum. Þetta er hluti af þeirri heimspeki sem ég er hlynntur, að til að vernda borgarann fyrir ríkinu þurfi að skipta því í þrennt, framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald. Ef löggjafarvaldið tekur að sér framkvæmdir er verið að blanda saman framkvæmdarvaldi og löggjafarvaldi. Hins vegar er framkvæmdarvaldið með eins konar löggjafarvald því að nánast öll lagafrumvörp sem samþykkt eru af Alþingi koma frá framkvæmdarvaldinu. Þetta er í rauninni mjög alvarlegt vegna þess að þeir sem framkvæma lögin eru jafnframt að semja þau þannig að þeir smíða vopnin í hendurnar á sér í baráttu við borgarana. Þetta er ekki nógu sniðugt, frú forseti.

Þær framkvæmdir sem Alþingi ákveður og fjárlaganefnd í þessu frumvarpi og breytingartillögum við það getur framkvæmdarvaldið ekki borið ábyrgð á. Segjum að við komumst að því að einhver framkvæmd sé röng, t.d. að ala önn fyrir fíkniefnahundi í Vestmannaeyjum, sem er víst hlutverk löggjafarsamkundunnar, en í ljós hafi komið seinna að hún væri röng og Alþingi færi að gagnrýna viðkomandi ráðherra fyrir það, þá gengi það að sjálfsögðu ekki vegna þess að hann getur ekki borið ábyrgð á því sem Alþingi sjálft hefur ákveðið. Svo er með fjöldann allan af öðrum framkvæmdum sem nefndar eru í breytingartillögum meiri hlutans og minni hlutans, að allar þær framkvæmdir ættu að vera á hendi framkvæmdarvaldsins. Alþingi ætti að setja ramma. Þetta mikið viljum við setja í söfnin og þið ráðið hvernig þið gerið það en þið verðið að standa okkur skil á því. Það er mikill munur á þessu.

Ég ætla rétt aðeins að fara í gegnum nokkrar skemmtilegar framkvæmdir. Til dæmis er lagt til 1,2 millj. kr. í tímabundið framlag til fjarkennslu í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu. Löggjafarsamkundan er þarna að standa að fjarkennslu. Ég veit ekki, frú forseti, hvort það sé hlutverk Alþingis.

Síðan er sett 1 milljón — ég hugsa að kostnaður við að setja málið í gang taki góðan hluta af því — í hákarlahjall í landi Asparvíkur á Bölum í Strandasýslu. Er þetta virkilega hlutverk löggjafarsamkundunnar, frú forseti? Þetta gæti að sjálfsögðu viðkomandi ráðuneyti, menntamálaráðuneytið, séð um og borið ábyrgð á. Þá gætu þingmenn spurt: Hvernig gengur með hákarlahjallinn í landi Asparvíkur á Bölum í Strandasýslu? En það er ekki svo. Nú er það Alþingi sem ákveður þetta og enginn ber ábyrgð á því. Segjum að þessir peningar gufuðu upp, færu allir í kostnað við að teikna og annað slíkt og engin framkvæmd yrði. Hver gæti spurt? Það gæti enginn í heiminum spurt ráðherrann að því hvernig gengi með þá fjárveitingu af því að Alþingi ákveður hana sjálft.

Svo á að setja 1 millj. kr. í manngerða hella í Rangárþingi ytra. Yndislegt, frú forseti. Þetta er hlutverk löggjafarsamkundunnar. Skaftholtsréttir, það á að fara að byggja réttir líka. Og setja á 0,5 millj. kr. í gamla þinghúsið í Hraungerðishreppi, Þingborg. Það eru 500 þús. kr. Ég hugsa að það eitt að setja verkefnið í gang kosti 500 þús. kr. þannig að ekki verður framkvæmt fyrir krónu. Þetta eru bæði of fáránlega litlar upphæðir og fáránlegar framkvæmdir til þess að löggjafarsamkunda landsins sé að eyða tíma sínum og orku í þetta í staðinn fyrir að smíða ramma utan um þjóðlífið í landinu.

Styrkja á kvikmyndagerð, auka á það framlag um 65 millj. kr. Segjum að það reyndist eintóm vitleysa. Hver bæri ábyrgð á því? Ekki ráðherrann, hann ákvað þetta ekki. Það er Alþingi. Og Alþingi er eftirlitsaðili með þessum framkvæmdum. Alþingi getur að sjálfsögðu ekki ákært sjálft sig.

Síðan á að gefa út íslensk-færeyska orðabók og gefa á út rit Harðar Ágústssonar um Laufás, 3 millj. kr. Þetta er bókaútgáfa, sem sagt ríkisútgáfa, Alþingi ætlar að sjá um orðabækur. (JBjarn: Spænsk-íslenska orðabókin kemur á fjáraukalögum.) Já, ég tala nú ekki um þau ósköp. Svo á að stofna fræðasetur í Stykkishólmi, 7 millj. kr.

Ég ætla að fara svolítið hraðar yfir. Skíðasvæðið í Tungudal við Skutulsfjörð á að fá pening. Það er svo sem ágætt. Einnig á að rannsaka — já, Alþingi ætlar að rannsaka líka, það er rétt, Alþingi ætlar að rannsaka sjávardvöl laxins. Það eru 12 millj. kr. í það. Það er aldeilis ágætt. Svo er framlag í Hekluskóga, tvisvar sinnum 7 millj. kr. í hvort skipti, Skógræktin og Landgræðslan. Það á sem sagt að rækta skóg líka. Þetta er svo sem ágætt, en ég hélt ég væri kosinn á Alþingi til að semja lög.

Svo er það náttúrlega hinn frægi hundur, sem heitir ekki lengur hundur, fíkniefnahundur. Núna heitir það: „Gerð er tillaga um 1 millj. kr. framlag til fíkniefnavarna í Vestmannaeyjum.“ Ég er búinn að spyrjast fyrir um að þetta er hundurinn, frú forseti. (Gripið fram í.) Já, þessi hundur sem … (Gripið fram í: Hvað heitir þessi hundur?) Ég veit það ekki en ég hélt að búið væri að ala hundinn upp. En það er sem sagt verkefni Alþingis að ala upp hund, ala önn fyrir hundi í Vestmannaeyjum. Það eru margir aðrir fíkniefnahundar og þeir eru á vegum dómsmálaráðuneytisins og ég held að þeir ættu bara allir að vera þar. Þá gætum við spurt ráðuneytið hversu margir hundar væru í gangi og hvað kostar að ala þá upp og svoleiðis. Þá ber einhver ábyrgð á þessu. En ég sé að hv. fjárlaganefnd er búin að breyta þessum titli af því að ég hef alltaf haft gaman af því að … (Gripið fram í: Þeir sáu við þér.) Þeir sáu við mér, þeir héldu að þeir gætu séð við mér en ég sá við þeim. Þetta er hundurinn. Síðan á að vakta hreindýrastofninn og rannsaka minka. Það er að vísu mjög mikilvægt en það er ekki hlutverk Alþingis, frú forseti.

Framlag er til Náttúrustofu Reykjaness til rannsókna á leiðum til að fækka mávi á Miðnesheiði. Já. Ég mundi nú skjóta þá. Þetta er náttúrlega alveg fráleitt að Alþingi skuli vera að setja svona í lög. Slíkt er hlutverk viðkomandi ráðuneytis og það á að bera ábyrgð á því.

Í lokin ætla ég að ræða um læknana, unglæknana af því að þeir komu til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar og ræddu við hana. Staðan er mjög skrýtin með unglæknana. Þeir vinna alveg eins og ég veit ekki hvað, dag og nótt. (Gripið fram í: Það er skelfilegt.) Það er bara skelfilegt, já. En það kom fram í nefndinni að þeir eru með 6–7 millj. kr. á ári í laun, um 500–600 þús. kr. á mánuði, unglæknar í námi. Þeir eru ekki orðnir læknar. Þeir eru a.m.k. með 500 þúsund kall á mánuði.

Ef ég ræki fyrirtæki með svona mikilli yfirvinnu mundi ég ráða fleira fólk og setja það á vaktir eins og hjá venjulegum rekstri. Og ég mundi spara helling af peningum af því að ódýrara er að hafa fólk á vöktum með einhverju vaktaálagi en borga því næturvinnulaun alla daga. Ég vildi ekki lenda hjá lækni sem er búinn að vaka í 24 tíma, frú forseti. Það er ekki beint gæfulegt. Því er gert ráð fyrir að þetta verði afnumið vegna þess að stóri bróðir í Brussel vill það og það er ágætt, nema þetta á að kosta. Þetta á að kosta í fjárlagafrumvarpinu 35 millj. kr. og hér er gert ráð fyrir að það aukist enn frekar upp í um 50 millj. kr. Það á að kosta að láta menn vinna dagvinnu, fá fleiri inn til að vinna dagvinnu í staðinn fyrir að borga þeim næturvinnu fyrir nákvæmlega jafnmarga tíma. Þetta er hagfræði sem ég skil ekki, þetta er rekstur sem ég skil ekki. Ef ég ræki svona fyrirtæki með svona óskaplegri yfirtíð — það væri náttúrlega aldrei þannig, en ef ég tæki við fyrirtæki með svona mikilli yfirvinnu mundi ég að sjálfsögðu ráða fleiri og hafa minni yfirvinnu og meiri dagvinnu og spara mér pening. Ég reikna með því að ef þessi Evróputilskipun næði fram sem við ættum að samþykkja strax án undanþágu fyrir unglækna þá ætti ríkið að spara. Það er eitthvað að þessu, frú forseti. Það er eitthvað að kjarasamningunum. Það er eitthvað mikið að kjarasamningunum.

Ég ætla ekki að verða langorður. Ég er þegar kominn yfir 11 mínútur og það þykir mér allt of langt. Ég ætla að ljúka með því að segja að þegar við lækkuðum fjármagnstekjuskattinn úr 48% á söluhagnaði niður í 10% stórjukust tekjur ríkissjóðs og þær hafa vaxið æ síðan. Þegar við lækkuðum skatta á hagnað fyrirtækja úr 50% niður í 18% stórjukust tekjur ríkissjóðs. Nú erum við að lækka skatta á tekjur einstaklinga og gerum það ósköp varfærnislega og mér sýnist að tekjurnar séu þegar byrjaðar að hækka þannig að stofninn hækkar og tekjur ríkissjóðs munu væntanlega stórhækka, að sjálfsögðu ekki endalaust. Ef við færum með skattinn í 0% gæfi það náttúrlega engar tekjur. Ég held að við séum … (Gripið fram í: En 1%?) nei, ég hugsa að það sé um 15% eins og Viðskiptaráðið leggur til, 15% flatan skattur mundi gefa ríkissjóði mestar tekjurnar og skattgreiðendur yrðu ánægðastir og miklir peningar yrðu í velferðarkerfið.