132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[21:30]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var margt athyglisvert í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Hann fór reyndar í margt ansi smátt. Ég ætla ekki að dvelja við það smæsta sem þar kom við sögu.

Í einum kafla ræðunnar komu m.a. fram vangaveltur um tengsl framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Það er auðvitað býsna áhugavert efni. Mér fannst hv. þingmaður dvelja, kannski eðlilega miðað við upplegg ræðunnar, við það að löggjafarvaldið væri raunverulega að taka eitthvað frá framkvæmdarvaldinu. Ég hugsa að það sé margt til í því en ég hef samt sem áður minni áhyggjur af því en hinni hliðinni, þ.e. að framkvæmdarvaldið sé að seilast æ meir í hlutverk löggjafarvaldsins. En ef hægt væri að hafa vöruskipti á þessu gætum við kannski náð jafnvægi á ný og ég gæti gengið í lið með hv. þingmanni til að ganga frá slíku.

Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann um er hvort hann deili ekki þeim áhyggjum með mér að framkvæmdarvaldið sé búið að seilast fullmikið í hlutverk löggjafarvaldsins, sérstaklega gagnvart því sem við ræðum hér, þ.e. fjárlögunum, þar sem það liggur ljóst fyrir að ákvarðanir um fjárútlát úr ríkissjóði er teknar að stórum hluta áður en þær eru afgreiddar á Alþingi og framkvæmdarvaldið tekur slíkar ákvarðanir í trausti þess að það hafi traustan meiri hluta í þinginu. Þess eru jafnvel dæmi, ef við trúum skýrslum Ríkisendurskoðunar, að framkvæmdarvaldið hafi jafnvel hvatt aðila til þess að fara fram úr fjárlögum.

Er hægt að búast við að aðilar beri virðingu fyrir lögum eins og fjárlögum þegar svo er? Það er meira að segja ýjað að því að framkvæmdarvaldið telji þetta bara býsna þægilegt fyrirkomulag vegna þess að það er alveg sama hvað það býður löggjafarvaldinu það kemst að því er virðist upp með allt. Hv. þingmaður er hluti af þeim meiri hluta sem að þessu hefur staðið.