132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[21:30]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst um samspil framkvæmdar- löggjafar- og dómsvalds. Ég hef töluverðar áhyggjur af því hve þetta samspil er mikið eins og endurspeglast í þessu frumvarpi þar sem Alþingi stendur að framkvæmdum og líka því að Alþingi semur nánast ekkert af þeim lögum sem það samþykkir. Við þingmenn ættum að vinna að því að breyta því.

En við grípum líka inn í dómsvaldið. Með lágmarkssektum og ákvæðum um lágmarksrefsingar tökum við fram fyrir hendurnar á dómurum. (Gripið fram í: Það er alveg rétt.) Við þurfum að skoða það líka. (Gripið fram í: Já, já.)

Ég ræddi um margt smátt, það er rétt. Þetta er frumvarp um margt smátt, um baunir, sumir tala um baunatalningu. En varðandi það sem hv. þingmaður sagði um framkvæmdarvaldið, að það væri að framkvæma í trausti þess að meiri hlutinn samþykkti það. Það er náttúrlega ekki nógu góð lenska, engan veginn. Auðvitað eiga menn að standa klárir að því og hv. þingmenn geta spurt að því ef stofnunin fer fram úr fjárlögum. Hv. þingmaður er væntanlega að tala um fjáraukalögin því þar kemur þetta fram. Þá eiga hv. þingmenn að spyrja hvernig á því standi. Og ég veit að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa spurt hvernig á því standi að þetta og hitt hafi farið fram úr fjárlögum rétt eftir að búið er að setja þau.

Ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt að koma á meiri aga. Ég hef lagt til að það væru svo sem eins og einn eða tveir forstjórar ríkisfyrirtækja látnir fara, (Gripið fram í.) þeir sem standa sig verst í því að fara að fjárlögum, til þess að gefa þeim og starfsmönnum þeirra og ráðherrunum merki um það að fjárlög séu lög sem fara eigi eftir og enginn hafi fjárveitingavald nema Alþingi. Einstakir forstöðumenn stofnana hafa ekki fjárveitingavald, þeir hafa ekki heimild til að fara fram úr fjárlögum, ekki samkvæmt stjórnarskrá.