132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[21:33]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka á margan hátt jákvæðar undirtektir hv. þingmanns við hugleiðingar mínar varðandi þetta efni. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þessir hlutir ganga ekki lengur og það virðist vera að a.m.k. einn og einn þingmaður í stjórnarmeirihlutanum sé að átta sig á því. Maður bíður þess vegna eftir því að hv. þingmenn sýni það einu sinni til tilbreytingar að þeir meini eitthvað með því sem þeir segja vegna þess að það dugir ekki að koma hér í stólinn og segja ýmislegt í þá veru sem hv. þingmaður sagði hér og vera svo þegar að atkvæðagreiðslu kemur, eins og hv. þingmenn, margir hverjir, búnir að steingleyma því sem þeir sögðu eða fylgja a.m.k. ekki því sem sagt var. (Gripið fram í: Hefur Pétur samþykkt hundinn?) Það er t.d. alveg ljóst — hv. þingmaður hefur aldrei samþykkt hundinn, held ég, hann hefur alltaf passað það — að ef hv. þingmaður meinar eitthvað með því sem hann sagði áðan þá á hann a.m.k. mjög erfitt með að samþykkja þær tillögur sem hér liggja varðandi fjárlög fyrir næsta ár, vegna þess t.d. að þar blasir við að fjöldi stofnana er þannig settur að á næsta ári fá þær raunverulega þau fjárframlög sem samþykkt eru hér vegna þess að nú þegar er búið að eyða stórum hluta þeirra. Það er m.a. þess vegna sem forstöðumönnum er ekki sagt upp, eins og hv. þingmaður boðaði hér, af þeirri einföldu ástæðu að menn vita það í ráðuneytunum að það er ekki störfum forstöðumannanna í þessum tilfellum um að kenna hvernig staðan er heldur vegna þess að fjárlög eru samþykkt meira og minna út í bláinn. Það er málið. Margar stofnanir eru búnar með 20–30% af þeim fjárframlögum sem hér er verið að samþykkja þannig að stjórnarmeirihlutinn hefur ekki hugmynd um hvaða ramma hann er að skapa starfsemi stofnananna. Þannig er raunveruleikinn, því er nú verr og miður.

Meðan stjórnarmeirihlutinn gerir ekkert í þessu og lætur framkvæmdarvaldið valta yfir sig fram og til baka þá er því miður ekki hægt að taka mark á orðum hv. þingmanna sem tala svipað og síðasti ræðumaður.