132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[21:36]
Hlusta

Guðmundur Magnússon (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vona að hæstv. heilbrigðisráðherra sitji hér undir ræðu minni. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. forsætisráðherra væri við a.m.k. í lok hennar þar sem ég ætla að leggja fyrir hann spurningu, ef hann er í húsi.

Hæstv. forseti. Þegar fjárlög fyrir 2006 voru lögð fram í haust brá mönnum í brún. Eina úrræðið fyrir þá öryrkja sem minnst fá var að skerða þann eina lið bótagreiðslu sem með góðum vilja var hægt að kalla atvinnuhvetjandi. Boðað var frumvarp frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra þess efnis að uppbót á elli- og örorkulífeyri og örorkustyrk vegna aksturs bifreiðar, svokallaður bensínstyrkur, yrði felld niður frá og með 1. janúar 2006 eða tæpum tveim mánuðum eftir framlagningu frumvarpsins. Slík vinnubrögð eru ekki til þess fallin að efla traust á hæstv. heilbrigðisráðherra.

Auðvitað snerust menn öndverðir gegn þessu. Jafnvel landsfundur Sjálfstæðisflokksins sá sitt óvænna og skammaðist sín frammi fyrir hreyfihömluðum félaga sínum og ályktaði síðan gegn þessum nýju álögum á öryrkja. En framsóknarmenn komu hver um annan þveran og æptu: Þið voruð búnir að samþykkja þetta og svíkið svo. Já, frú forseti, það hrikti í stoðum stjórnarheimilisins.

En þá kom nýtt tromp: Ha, ha, þið fáið ekki það sem við lofuðum að veita í sama væntanlega frumvarpi. En þar stóð, með leyfi forseta:

„Af þeim fjármunum,“ — þ.e. þessum 720 millj. kr.— „er lagt til að 100 millj. kr. verði milifærðar til að efla starfsendurhæfingu sjúkratrygginga og 393,6 millj. kr. til að hækka tekjutryggingarauka hjá elli- og örorkulífeyrisþegum og 226,4 millj. kr. notaðar til að mæta hagræðingarkröfu.“

Frú forseti. Höfðingsskapur ríkisstjórnarinnar var eða hefði orðið mikill ef meiri hluti hv. fjárlaganefndar hefði ekki skert tekjutryggingarauka hjá elli- og örorkulífeyrisþegum eða til starfsendurhæfingar sjúkratrygginga, því samkvæmt breytingartillögum meiri hluta hv. fjárlaganefndar skulu þær milljónir sem áttu að ganga til að hækka tekjutryggingarauka hjá elli- og örorkulífeyrisþegum ganga til baka sem og 100 milljónirnar í starfsendurhæfinguna. Og hvað með 226,4 milljónirnar sem átti að nota til að mæta hagræðingarkröfu, með öðrum orðum sparnað? Já, ef menn vilja ekki sósu þá fá þeir ekki heldur kartöflur. Tekjutryggingarauka fá þeir einir sem fá engar aðrar greiðslur og eru hvað verst settir í þessu kerfi.

Frú forseti. Er þetta ekki dæmigert fyrir þessa aumu ríkisstjórn sem æ ofan í æ finnur hjá sér hvöt til að fara ofan í vasa þeirra sem minnst hafa fyrir? Ríkisstjórnin verður að hverfa af þeirri braut að skerða markvisst kjör fatlaðra og lífeyrisþega. Hlutdeild neytenda í lyfjakostnaði hefur verið aukin og gjöld fyrir hvers kyns þjálfun verið hækkuð. Þetta gengur ekki, frú forseti.

Bensínstyrkurinn svokallaði er líklega það eina í þessu stagbætta lífeyriskerfi ríkisins sem hægt er að kalla atvinnuhvetjandi. Þannig er málum háttað, frú forseti, að þegar fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, sú með Alþýðuflokknum, tekjutengdi jafnvel örorku- og ellilífeyrinn, en áður var litið svo á að hann væri eins konar uppbót fyrir þann aukakostnað sem hlytist af fötlun eða öldrun, þá gleymdist bensínstyrkurinn sem betur fer. Eins og fram hefur komið í skýrslum eru hér á landi færri öryrkjar en á öðrum Norðurlöndum og fram að þessu hefur Ísland skorið sig úr vegna meiri atvinnuþátttöku fatlaðra en víðast hvar í Evrópu. Ég fullyrði að margur fatlaður einstaklingurinn treysti sér ekki á vinnumarkað ef ekki væri bensínstyrkurinn, ekki vegna þess að hann sé svo hár heldur er þarna einhver smáuppbót á sannarlega dýrara líf.

Jafnframt hefur komið í ljós að endurhæfingarúrræði eru færri hér á landi en víðast hvar í Vestur-Evrópu. Loks þegar eitthvað virðist vera að rætast þar úr kippir hæstv. ríkisstjórn að sér höndum af því að ekki er hægt að klípa það af einhverjum öðrum bótum. Þetta líkist helst krakka að leika sér með töluboxið hennar mömmu.

Frú forseti. Við gumum af ríkidæmi þjóðarinnar og víst er gaman að heyra um kaup landans á Magasin du Nord og öðrum stórfyrirtækjum í útlöndum, ævintýralegum gróða bankanna sem við áttum „forresten“ en gáfum vinum og velunnurum. Jafnvel Símann, þá góðu mjólkurkú, lögðum við á altari einka- og græðgisvæðingar. Á sama tíma er helsta sparnaðarleið hæstv. ríkisstjórnar að klípa af þeim sem minnst hafa fyrir.

Mætti ég þá heldur benda á frumvarp þingflokks Vinstri grænna til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Í frumvarpi þessu er lagt til að hlutfall fjármagnstekjuskatts hækki úr 10 í 18% en jafnframt verði sett skattleysismörk við 120 þús. kr. tekjur einstaklinga á ári. Vonandi skoða þingmenn þessar tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs betur og átta sig á að það er vel borð fyrir báru á Íslandi ef menn eru ekki svo „alúmeraðir“ að þeir sjái ekki út fyrir álglýjuna eða vatnsvirkjanasullið sem öllu skal sökkva hversu fagurt og frítt sem það er.

Frú forseti. Þær upphæðir sem ætlaðar eru til framfærslu hér á landi eru mun lægri en á öðrum Norðurlöndum en verðlag þó hærra. Það á ekki aðeins við lífeyrisgreiðslur heldur ekki síður þau laun sem greidd eru fyrir lægst launuðu störfin. Það er okkur til vansa, frú forseti.

Hæstv. forseti. Ég vil ekki ljúka máli mínu án þess að nefna það sem mér hefur fundist vel hafa tekist. Þar skal fyrst nefna þann samning sem hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra Jón Kristjánsson gerði 25. mars 2003 við Öryrkjabandalag Íslands um aldurstengda örorku. Að ekki hefur verið staðið við þann samning að fullu að okkar áliti læt ég liggja á milli hluta. Þessi samningur var sögulegur og í fyrsta sinn sem samið var beint við bandalag fatlaðra. Það var lofsvert og er mjög mikilvægt, frú forseti, að slíkt samband haldi áfram, en kjörorð Evrópusamtaka fatlaðra hljóðar svo: „Ekkert um okkur án okkar.“

Að 26 þúsundkallinn eða desemberuppbótin sem samið var um við ASÍ, BHM og BSRB hefur einnig fengist til lífeyrisþega og nú jafnvel þeirra sem aðeins hafa vasapeninga er fagnaðarefni. Það má segja, frú forseti, að hér sé um sjálfsagðan hlut að ræða, en þegar horft er yfir sparnaðaráform ríkisstjórnarinnar undanfarið verður manni að orði: Batnandi manni er best að lifa.

Frú forseti. Á aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands 19. október sl. ályktaði fundurinn m.a., með leyfi forseta:

„Öryrkjabandalag Íslands telur að brýna nauðsyn beri til að endurskoða nú þegar lög um almannatryggingar. Einfalda þarf ýmsa þætti laganna og tryggja afkomuöryggi lífeyrisþega. Síauknar tekjutengingar eru stórkostlegt vandamál.“

Frú forseti. Hér eru svo sannarlega orð í tíma töluð. Lögin um almannatryggingar eru svo stagbætt, teygð og toguð að það hálfa væri nóg. Síðasta dæmið um slíkt eru þær deilur sem nú eru upp komnar milli hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Tryggingastofnunar ríkisins annars vegar og Öryrkjabandalagsins hins vegar vegna óvæginna innheimtuaðgerða á meintum ofgreiddum lífeyri. Lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins eru laun margra. Hætt er við að mönnum brygði í brún ef með litlum fyrirvara væru skert hjá þeim launin. Hvað með skuldbindingar eins og húsaleigu og afborganir af lánum? Þetta er til vansa, frú forseti.

Í lögum um almannatryggingar frá 1993 segir í 50. gr., með leyfi forseta:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.“

Í 3. mgr. sömu greinar segir, með leyfi forseta:

„Ekki er heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum til bótaþega, þó aldrei lægri fjárhæð en 3.000 kr., uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu nema samið sé um annað.“

Frú forseti. Hér er um slíkt sanngirnismál að ræða að ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra ætli að fara inn í jólin án þess að greiða úr þessu máli með hag allra í huga. Að hamast á öryrkjum með lögfræðilegum hártogunum í stað þess að taka af skarið og segja: „nei, svona gerir maður ekki“ og leysa málin.

Frú forseti. Lágtekjumiðun lífeyrisgreiðslna er eitt af meginsérkennum almannatryggingakerfisins á Íslandi. Það er ekki nóg, frú forseti, að tekjutenging og lífeyririnn skerðist heldur falla niður margs konar afslættir og aðstoð sem tengist því að hafa fulla tekjutryggingu. Það er nógu erfitt, frú forseti, að hafa sig upp eftir veikindi eða slys með skerta getu, sífellt áminntur um fyrri getu, þó að ekki sé verið að bregða fyrir mann fæti í hvert skipti sem maður reynir að vinna sér inn fáeinar krónur.

Frú forseti. Þrátt fyrir kerfi sem heldur letur til atvinnuþátttöku er það staðreynd að á Íslandi er meri atvinnuþátttaka fatlaðra en víðast hvar í Evrópu. Af þessu getum við verið stolt. En betur má ef duga skal. Því er það svo mikilvægt að bætt sé í til að efla starfsendurhæfingu og í raun að stórefla slíka starfsemi. Ég er þess fullviss, frú forseti, að það skilaði sér margfalt í þjóðarbúið að ekki sé talað um þá lífsfyllingu sem það gefur hverjum manni að vera þátttakandi í samfélaginu, ekki aðeins með þeim réttindum sem því fylgir heldur ekki síður að fá að takast á hendur þær skyldur sem því fylgir og eru í reynd mannréttindi númer eitt.

Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. forsætisráðherra væri hér en ég beini því til hæstv. samráðherra hans að hann komi því til hans: Hvað líður gerð neyslustaðals samkvæmt þingsályktun sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fékk samþykkta á þinginu fyrir þremur árum og kom síðan með fyrirspurn fyrir ári þar sem forsætisráðherra svaraði að gert væri ráð fyrir að starfshópurinn skili skýrslu til viðskiptaráðherra eigi síðar en 31. desember á næsta ári, þ.e. í árslok 2005? Ég vildi gjarnan fá að vita hvort ekki væri rétt að Öryrkjabandalag Íslands fengi að gefa álit sitt áður en slíkur neyslustaðall verður gefinn út.