132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:02]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi endurskoðun almannatryggingalaga þá er það auðvitað spurning um aðferð hvort menn fara í endurskoðun í heild eða endurskoða einhvern hluta. Hingað til hefur það verið þannig að þegar ráðist hefur verið á allan lagabálkinn þá hafa menn hætt í miðjum klíðum þannig að það kemur alveg til greina að endurskoða einhvern hluta laganna en ég er ekki tilbúinn í kvöld að segja til um það hvaða leið ég fer í því.

Varðandi starfsendurhæfinguna þá eru möguleikar í fjárlagafrumvarpinu sem efla hana eins og frumvarpið lítur út núna eftir breytingartillögurnar sem hafa verið gerðar. Ég hefði gjarnan viljað efla hana meira og ég tel það nauðsynlegt, og þeir samningar sem hafa verið gerðir við lífeyrissjóðina og verkalýðshreyfinguna kveða á um þetta og það tel ég mikils virði.

Varðandi lögin um almannatryggingar sem voru samþykkt fyrir tveimur árum þá mun ég fara vel yfir þann lagabálk en ég er ekki þar með að segja hver niðurstaðan verður í því og ég vil ekki að hv. þingmaður leggi þannig út af orðum mínum en ég mun fara mjög vandlega yfir allar hliðar þess máls. Það var einfaldlega það sem ég sagði.