132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:04]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessar skýringar og hvet hann til að hefja endurskoðun, a.m.k. á lífeyriskaflanum í almannatryggingunum í heild. Það er búið að endurskoða í hlutum sem gerir það að verkum að það kemur bara niður á öðrum hlutum laganna og einnig að lögin verða sífellt flóknari og flóknari. Ég minni á tekjutryggingaraukann sem settur var inn og útreikningsregluna á tekjutryggingunni sem er ekki fyrir nokkurn mann að skilja nema liggja yfir því lengi, þannig að ég hvet hæstv. ráðherra og spyr hann að því hvort hann sé tilbúinn að fara í þá vinnu að endurskoða lífeyriskafla almannatrygginganna og gera lögin einfaldari og mannúðlegri og minnka tekjutenginguna þannig að fólk geti þá a.m.k. aflað sér smá tekna án þess að það komi harkalega niður á því. Í ræðu minni á eftir mun ég vera með dæmi um það hvernig þær reglur sem nú gilda bitna á fólki.

Ég spyr hæstv. ráðherra einnig: Er hann tilbúinn að breyta þeirri reglugerð sem nú tók gildi um að stöðva greiðslur til þeirra sem hafa fengið ofgreiðslurnar? Ætlar hann að breyta þeirri reglugerð þannig að fólk verði ekki auralaust um jólin, þeir sem hafa fengið ofgreitt að mati Tryggingastofnunar?

Svo langar mig að nefna annað sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra og það er um milljarðinn í búsetuúrræðum fyrir geðfatlaða sem ég fagna vissulega. Það er löngu tímabært að þeir peningar komi frá sölu Símans, en ég minni á að hann er að úthluta peningum langt fram í tímann á fjárlög sem verða ekki samþykkt á Alþingi fyrr en á næsta kjörtímabili. En ég efast þó ekki um að staðið verði við það því það er orðið mjög brýnt mál að ráða bót á búsetumálum geðsjúkra.