132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:44]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu að þessu sinni. Ég kem hér fyrst og fremst til að mæla fyrir breytingartillögu sem ég flyt ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, Margréti Frímannsdóttur, Þuríði Backman og Magnúsi Þór Hafsteinssyni um aukna fjárveitingu til barna- og unglingageðdeildarinnar upp á 90 millj. kr. En áður en ég kem að því ætla ég að fara örfáum orðum um nokkur atriði í því frumvarpi og breytingartillögum sem hér er verið að ræða.

Fyrst vil ég segja, frú forseti, að ég vil þakka þeim ráðherrum sem hafa sýnt okkur þingmönnum þann sóma að vera við í allan dag til að eiga við okkur orðastað. Út af fyrir sig má segja að það sé sjálfsagt af hæstv. fjármálaráðherra að vera viðstaddur umræðu um frumvarp sem hann hefur sjálfur lagt fram og breytingartillögur við það. Þetta er háttur og vandi fjármálaráðherra, og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur verið hér lungann úr deginum, vakinn og sofinn við þessa umræðu og hefur lagt margt gott til hennar allar götur frá því hún hófst í morgun. Hins vegar get ég ekki hafið ræðu mína án þess að áfellast harðlega að ráðherrar mikilvægra málaflokka hafa ekki verið viðstaddir. Ég hef þegar fundið að því fyrr í dag að hæstv. menntamálaráðherra sé fjarstödd, en hún er erlendis á þessum mikilvæga degi þingsins þegar menn ræða fjárveitingar til málaflokka.

Það eru tveir málaflokkar sem einkum bera af öðrum vegna þess hversu umfangsmiklir og þýðingarmiklir þeir eru og taka stóra skerfi af fjárlögum ríkisins, það eru heilbrigðisráðuneytið og menntamálaráðuneytið og ég verð að segja að ég er ánægður með að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur varið hér stefnu sína á meðan við höfum ekki getað átt orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra (Gripið fram í: ... við hæstv. menntamálaráðherra.) við hæstv. menntamálaráðherra. Ég kvarta ekki undan hæstv. heilbrigðisráðherra, a.m.k. ekki fyrr en orðaskiptum okkar verður lokið í kvöld.

Ég var að rifja það upp, frú forseti, að það er skammt síðan það bárust skýrslur um gæði og fjárveitingar íslenska háskólastigsins og þá kom það fram, sem við máttum auðvitað vita sum hver, að t.d. Háskóli Íslands stendur fyllilega jafnfætis þeim samanburðarháskólum sem samtök evrópskra háskóla báru hann saman við um gæði náms og rannsóknir. En að einu leyti stóð hann miklu aftar, það var hvað varðaði fjárveitingar. Við í Samfylkingunni höfum lagt þunga áherslu á að það væri gert markvisst og skipulegt átak til að hefja háskólastigið enn meira til vegs en gert er í dag. Við höfum lagt áherslu á að auka úrval námsbrauta og reyna að laða að aukinn fjölda íslenskra ungmenna til háskólanáms þannig að við stæðum jafnfætis nágrannalöndunum að þessu leyti. Í dag er það einfaldlega svo að engum blandast hugur um að lykillinn að farsæld og samkeppnishæfni í framtíðinni er menntastig þjóðar alveg eins og menntastigið skiptir sköpum um það hvernig landshlutum reiðir af hér innan lands. Við höfum ekki náð því að verja jafnmiklu af opinberu fé til háskólastigsins og nágrannalöndin og almennt má segja að við stöndum þeim að ýmsu leyti aftar. Okkur hefur heldur ekki tekist að byggja upp í jafnríkum mæli og þessar þjóðir hátækniiðnað, fjölbreyttan iðnað sem byggist á mikilli þekkingarframleiðslu.

Þetta stafar af því, frú forseti — af því að formaður menntamálanefndar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er staddur hér hjá okkur — að það er mjög erfitt að greina stefnu í þessum málaflokki. Ég segi það hiklaust að langvarandi seta Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu er auðvitað ábyrg fyrir þessu. Í rúma tvo áratugi má segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi meira og minna farið með þessi mál og hann hefur ekki haft þá framsýni til að bera sem þeir flokkar sem hafa stjórnað málaflokknum í nágrannalöndunum hafa haft og það er þetta sem veldur stöðunni í dag. Um þetta hefði ég viljað ræða við hæstv. menntamálaráðherra en hún kaus því miður fremur að vera í Senegal og ég get ekkert um það sagt.

Ég hefði líka viljað ræða við hæstv. menntamálaráðherra um furðulegar staðhæfingar hennar um Háskólann á Akureyri. Hæstv. menntamálaráðherra hefur beitt sér fyrir því að sá skóli sem er vaxandi, og stendur sig vel eins og kom fram síðast í fréttum í dag, fær ekki þær fjárveitingar sem hann þarf til að geta staðið áfram undir þeirri þróun sem hann hefur verið í. Hæstv. menntamálaráðherra lét svo um mælt þegar hún var spurð hvað ylli því að hún skar niður 50 millj. af beiðni sem fyrir lá, að þegar upp væri staðið væri þetta gott fyrir skólann. Þetta hefði ég gjarnan viljað ræða við hæstv. menntamálaráðherra og annað sem mér finnst mikilvægt að ræða þegar menntastefna okkar er reifuð og þegar við erum að reifa fjárlög, en það er hin undirliggjandi stefna. Og af því að hæstv. starfandi menntamálaráðherra er hér í salnum segi ég það að ég þykist þó, af þeim umræðum sem hafa farið fram í dag, geta greint að í heilbrigðisráðuneytinu, sem er erfiður og vandasamur málaflokkur, er þó unnið eftir ákveðinni stefnu. Ég sé það hins vegar ekki í þeirri stefnu sem hæstv. menntamálaráðherra hefur sagst fylgja. Þar sér maður ekki að unnið sé eftir stefnu sem nær lengra en fram á mitt næsta ár og þá er nánast sama hvað maður skoðar hjá hæstv. menntamálaráðherra. Það er erfitt að sjá á hvaða áfangastað hún miðar í þeim ákvörðunum sem hún hefur tekið. Um þetta hefði ég viljað ræða en ég ætla ekki að krefjast þess að hæstv. fjármálaráðherra sem gegnir einnig embætti fyrir hæstv. menntamálaráðherra svari því.

Ég hefði líka viljað ræða við hæstv. iðnaðarráðherra sem fer með byggðamál um stöðu byggðamála landsins í dag. Nú er það svo, frú forseti, að það er ekki hægt að segja annað en að þjóðarbúið standi vel. Tekjustaða ríkisins er góð og sennilega verður langt þangað til ríkissjóður býr jafn vel og hægt er að segja að hann búi í dag. Ég ætla ekki að lá hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórninni þótt hún berji sér á brjóst og þakki sjálfri sér þetta. Staðreyndin er þó sú að hin mikla tekjuaukning ríkissjóðs er auðvitað fjármögnuð af viðskiptahalla og um það gæti ég haft langt mál og einnig um þann skort sem mér finnst vera á tökum hæstv. ríkisstjórnar á þenslunni sem hefur neikvæðar, en líka jákvæðar afleiðingar. Hluta af jákvæðum afleiðingum sjáum við t.d. í þeirri stöðu sem ríkissjóður er í eða áætlað er að hann verði í á næsta ári.

En það eru líka neikvæðar afleiðingar af þessu. Við sjáum hvernig staða lykilstarfa í efnahagsmálunum er. Við sjáum hækkandi vexti og gríðarlega hátt gengi og þetta kostar sitt. Ein af neikvæðum afleiðingum þessa eru ruðningsáhrifin sem hafa þau áhrif að fyrirtæki sem stunda framleiðslu og útflutning af landsbyggðinni láta undan síga og það er ekkert sem bendir til annars, miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir í gögnum fjármálaráðuneytisins, en þessi staða verði áfram með svipuðu móti næstu árin. Þá er það alveg ljóst að sérstaklega fyrirtæki úti á landsbyggðinni eiga í vök að verjast og á síðustu vikum og mánuðum höfum við fréttir um það að hjá sumum þeirra hafi staðan sennilega aldrei verið verri. Þetta hefur ákaflega óheillavænleg áhrif á atvinnustig og einnig á almenna vellíðan og bjartsýni í þessum stöðum, má segja. Það er við þessar aðstæður sem við þurfum markvissa byggðastefnu. Við þurfum markviss tæki og vel brýnd til að geta unnið gegn afleiðingum þessa ástands á landsbyggðinni og það er þess vegna, frú forseti, sem ég hefði viljað ræða við hæstv. byggðamálaráðherra um byggðastefnuna sem er undirliggjandi í þessu frumvarpi vegna þess að þegar ég rýni í frumvarpið og reyni að greina stefnuna þá kem ég ekki auga á hana. Ég kem hins vegar auga á að það virðist sem ekkert sé verið að gera til að taka á þessum vanda.

Á síðustu dögum höfum við orðið vitni að því að hæstv. byggðamálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, hefur ekki hugmynd um hvað hún ætli að gera við Byggðastofnun sem einu sinni var vel virk stofnun. Byggðastofnun hefur alltaf verið umdeild en hún var þó að vinna gegn vandamálum sem landsbyggðin á við að glíma. En í dag má segja að undir stjórn núverandi byggðamálaráðherra sé stofnunin nánast orðin að skel. Það er búið að flytja verkefni sem tengjast rannsóknum frá henni til annarrar stofnunar á Akureyri. Það er búið að færa annars konar verkefni sem tengjast fjárfestingum í aðra stofnun sem er annars staðar og hvað er þá eftir í Byggðastofnun í dag? Jú, tap á fjárfestingum fyrri ára og erfiðustu lánveitingarnar liggja þar. Hvaða sýn hefur hæstv. ríkisstjórn á þróun þessarar mikilvægu stofnunar? Ég get ekki svarað því. En hæstv. byggðamálaráðherra þyrfti að svara því ef hún væri hér í kvöld og það er þess vegna sem Samfylkingin leggur með táknrænum hætti áherslu á þennan vanda með því að leggja tvennt til í byggðamálum: Í fyrsta lagi að hálfum milljarði verði varið sérstaklega til málaflokksins og í öðru lagi að sú fjárhæð verði ekki vistuð hjá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu heldur forsætisráðuneytinu. Samhliða því höfum við lýst því að við flytjum tillögu um að Byggðastofnun verði tekin úr höndum hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og flutt í forsætisráðuneytið. Fyrir því eru tvær ástæður: Í fyrsta lagi til að leggja áherslu á mikilvægi málaflokksins við núverandi aðstæður en í öðru lagi felast líka í tillögunni hörð mótmæli okkar í Samfylkingunni við athafnaleysi núverandi byggðamálaráðherra. Við teljum að henni hafi mistekist það hlutverk sem hún átti að hafa með höndum og að hún sé allt of upptekin og miklu áhugasamari um aðra málaflokka en þennan málaflokk sem hún hefur vanrækt.

Frú forseti. Þetta eru málin sem ég hefði viljað ræða við hæstv. byggðamálaráðherra, eins og um ákveðna þætti menntastefnunnar sem tengjast þessu fjárlagafrumvarpi og tillögum okkar í Samfylkingunni ef hæstv. menntamálaráðherra hefði ekki frekar kosið að vera í Senegal.

Eins og ég sagði, frú forseti, þá ætla ég að freista þess að halda hér ákaflega stutta ræðu. Fyrst og fremst kem ég hingað til að mæla fyrir þeirri breytingartillögu sem ég nefndi áðan og varðar stækkun á barna- og unglingageðdeildinni. Á síðustu vikum og mánuðum hafa verið fréttir um aðkallandi vanda á BUGL. Það hefur komið fram að aðstöðuleysi sem hefur verið viðvarandi þar hefur leitt til þess að t.d. læknanemar og þeir sem eru búnir að ljúka fyrsta áfanga læknismenntunar skirrast við að heyja sér framhaldsmenntunar á þessu sviði, þ.e. sem tengist barnageðsjúkdómum. Af sömu ástæðu má síðan gera ráð fyrir ákveðnum vanda í framtíðinni. Þetta hefur líka leitt til þess að það hefur skapast biðlisti við þessa deild LSH og nú er það svo, frú forseti, að ég held að við sem sitjum á þessu þingi séum öll sammála um að það beri að sinna þessum málaflokki betur. Ég hef áður sagt af ærleika hjarta míns að ég er mjög ánægður með að í tiltölulega nýlega tilkynntum aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar er gert ráð fyrir að veita töluverðu fjármagni í aukin úrræði fyrir geðfatlaða en mér og mörgum öðrum finnst að þetta tiltekna verkefni hafi legið eftir. Það sem er sárast er að fram hefur komið að það er búið að safna saman töluvert miklum fjármunum, 180 millj. sem eru í sjóði stofnunarinnar sem einstaklingar og fyrirtæki hafa safnað. Það vantar 90 millj. til að hægt sé að ráðast í framkvæmdina.

Ég held að það hafi komið fram fyrr í dag að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tekið ákaflega vel í að reyna að finna lausn á þessum vanda. Ég spurðist fyrir um það í umræðunni, þegar hv. þingmaður Magnús Stefánsson hafði lokið framsögu sinni, hvort það væri mögulegt að hans mati að finna einhvern flöt á því að útvega fjármagn, hugsanlega allt að 90 millj. sem við leggjum til að bætist við á fjárlögum, hugsanlega minni upphæð og jafnvel samfara því að reyna að leita að fjármagni úr sjóðum sem tengjast framkvæmdum innan heilbrigðisgeirans, þannig að hægt væri að ráðast í þessa framkvæmd. Mig langar því til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvaða afstöðu hann hafi til þessa. Hæstv. ráðherra hefur sagt í fjölmiðlum fyrr í dag að hann teldi að þetta væri unnt. Hann hefur sagt það fullum fetum að hann teldi jafnvel að ef vel tækist til væri hægt að hefja framkvæmdir innan tveggja mánaða.

Það hefur hins vegar líka komið fram í fjölmiðlum að stjórnendur þessarar deildar og raunar spítalans telja að það skorti vilyrði frá heilbrigðisráðuneytinu og þar með ríkisstjórninni til að standa að frekari framkvæmdum í framtíðinni til að ljúka verkinu. Því vildi ég gjarnan að hæstv. heilbrigðisráðherra mundi skýra þetta mál, helst í andsvari, þannig að það liggi alveg ljóst fyrir hver afstaða hans til málsins sé, hvað hann hyggst fyrir og hvort hann hafi rætt við forráðamenn LSH um að hefjast handa. Ég tel mikilvægt að það komi fram í aðdraganda þessarar yfirlýsingar hæstv. ráðherra hvort samráð hafi átt sér stað við yfirstjórn LSH og hvort einhver niðurstaða liggi fyrir í slíkum viðræðum og þar með í reynd ákvörðun hæstv. ráðherra um þessa framkvæmd. Sömuleiðis um hvernig hann ætli þá að fjármagna þetta. Ef hæstv. ráðherra telur að ekki sé þörf á því að samþykkja þessa tillögu sem við höfum lagt fram þá vildi ég gjarnan að hann skýrði út fyrir þingheimi af hverju hann hefur þá skoðun.