132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[23:05]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil tímans vegna aðeins skýra nánar atburðarásina. Þessi framkvæmd hefur verið undirbúin síðastliðin tvö ár og farið hefur fram grenndarkynning, þarfagreining og frumkostnaðaráætlun um verkið. Við teljum að ef byggja ætti á Landspítalalóðinni yrði það eftir u.þ.b. 15 ár og það er of langur tími. Við viljum ekki rugga þessum bát og fara í þetta verk. Ef valin yrði önnur leið seinna meir gengur þetta húsnæði til margs konar annarrar starfsemi. Við teljum því einboðið að fara í verkið því að þörfin er brýn að efla göngudeildina þarna. Við munum beita okkur fyrir því að fjármagn til lokaframkvæmda verði veitt á árinu 2007. Það má líka geta þess að Landspítalinn hefur töluverða fjármuni til stofnkostnaðarframkvæmda. Mér hefur verið kynnt að þetta sé forgangsverkefni hjá þeim núna og ég hef ítrekað rætt þetta mál við forustumenn spítalans eins og hefur fram komið.

Þjóðin hefur áhuga á þessu máli og það eru jákvæðir straumar meðal þjóðarinnar til þessara framkvæmda. Við viljum mæta því að sjálfsögðu því að menn hafa látið verulega (Forseti hringir.) fjármuni af hendi rakna til þessara hluta.