132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Verðsamráð olíufélaganna.

[10:04]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Þessi mál hafa verið til skoðunar hjá þeim ráðuneytum og stofnunum sem þetta varðar sérstaklega og eftir því sem ég hef fregnað að undanförnu eru þau mál langt komin og þess að vænta að innan tíðar fái fjármálaráðuneytið niðurstöður þeirrar vinnu. Þegar þær niðurstöður eru allar komnar í hús skapast grundvöllur til þess að taka afstöðu til málsins í heild og ákvarða hvort efni standa til að höfða mál eða hvort mál eru þannig vaxin að það séu minni líkur en meiri á því að niðurstaða náist.

En þrátt fyrir að liðnir séu níu mánuðir er enn verið að vinna í málinu, því hefur miðað áfram og niðurstöðu er að vænta innan tíðar án þess að hægt sé að nefna dagsetningar í því sambandi.