132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Verðsamráð olíufélaganna.

[10:08]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að stóru olíufélögin þrjú höfðu með sér samráð um verð til stórra viðskiptaaðila, þar á meðal til ríkisins. Þetta er óumdeilt, þetta liggur fyrir og brot í þessa veru hafa verið játuð.

Maður veltir fyrir sér hvernig í ósköpunum geti staðið á því að hæstv. fjármálaráðherra kemur upp og svarar spurningu um það hvort ríkissjóður ætli að sækja bætur fyrir þau brot sem liggja fyrir á þann veg að það sé í skoðun. Getur verið að það þurfi að skoða það? Ef fyrir liggur að brotið hefur verið á ríkinu þarf þá að skoða það hvort sækja á þann rétt sem hlýtur að liggja hjá ríkinu?

Málið er í mínum huga ósköp einfalt. Það liggur fyrir. Við getum sett það upp í örfáar staðreyndir. Það var brotið á ríkinu. Þau brot er búið að játa. Ríkið hefur orðið fyrir tjóni. En hæstv. ráðherra segir að það skuli skoða hvort rétt sé að bregðast við þeim staðreyndum að svindlað hafi verið á ríkinu, að svindlað hafi verið á almenningi. Það er óboðlegt að koma í ræðustól þingsins og lýsa því yfir að í allan þennan tíma hafi embættismenn verið að skoða hvort ástæða sé til að bregðast við og það liggi ekki nein niðurstaða fyrir í því.

Við hljótum að þurfa að fara fram á það við hæstv. fjármálaráðherra að hann svari okkur betur og að svarið verði gleggra en þetta. Er einhver vafi á því að ríkið ætli að sækja bætur? Það er spurningin. Er einhver vafi á því? Ætlar fjármálaráðherra að gæta hagsmuna ríkisins og sækja þessar bætur fyrir okkar hönd?