132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Verðsamráð olíufélaganna.

[10:12]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar fyrir liggur niðurstaða frá stofnun á vegum ríkisins, stofnun sem hefur verið sett á fót til að hafa eftirlit með samkeppni, að samkeppni hafi verið brotin og það liggja fyrir játningar hvað það varðar ætti ríkið auðvitað að vera í fararbroddi og fylgja eftir kröfum um að bætur fáist frá þeim aðilum sem eiga hlut að máli. En það er ekki aldeilis þannig að ríkið gangi þar á undan. Heldur er ástæða til að halda að þar séu menn að hnoðast með þetta mál af einhverjum undarlegum ástæðum.

Hvernig stendur á því að ríkið getur ekki tekið afstöðu þegar Reykjavíkurborg hefur tekið hana, þegar útvegsmenn hafa opinberlega lýst því margsinnis yfir að þeir ætli sér að ná fram bótum? Það liggur ekki einu sinni fyrir hvort stjórnvöld hér ætli að fylgja málinu eftir og fá bætur fyrir þessi brot. Þetta er óbjörgulegt og þegar horft er á þetta í samhengi við það hvernig stjórnvöld hafa á undanförnum árum staðið við bakið á stofnunum af þessu tagi hjá okkur hlýtur maður að efast um að viljinn sé fyrir hendi. Mál eyðilögðust hjá Samkeppnisstofnun á sínum tíma, t.d. gagnvart tryggingafélögunum, af því að ekki var hægt að vinna að þeim, af því að stjórnvöld stóðu ekki við bakið á þessum stofnunum til þess að hægt væri að rannsaka þau. Og nú liggur fyrir að menn liggja yfir því mánuðum saman hvort sækja eigi þann rétt sem fyrir liggur á grundvelli játninga. Og hæstv. fjármálaráðherra skilar hér auðu. Jú, það er verið að skoða málið en niðurstaðan liggur ekki fyrir.

Hæstv. fjármálaráðherra ætti að geta orðið við þeirri kröfu að hann sæki rétt og ríkisvaldið sæki rétt fyrir hönd borgaranna í þessu landi.