132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:34]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Hér eru greidd atkvæði um tillögu sem við berum fram um að komið verði upp hagdeild við Alþingi. Þessi hugmynd kviknaði þegar til umræðu var niðurfelling á Þjóðhagsstofnun. Er það mjög minnisstætt að þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson tók mjög vel í þá tillögu og taldi mjög eðlilegt að þingið yrði styrkt á þessu sviði. Því miður hefur stjórnarmeirihlutinn ekki léð máls á þessu þrátt fyrir að að sjálfsögðu sé full ástæða til. Það sýnir sig ætíð við fjárlagavinnuna að löggjafarvaldið stendur mjög veikt gagnvart framkvæmdarvaldinu hvað varðar hagfræðirannsóknir.

Það væri því við hæfi að meiri hlutinn tæki eftir málinu og greiddi því atkvæði til að láta vita á táknrænan hátt að menn hafi verið sammála því sem Davíð Oddsson sagði við umræðuna þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður, nú þegar hann hefur yfirgefið þennan sal. En því miður eru kveðjur til hans á annan veg að því er mér sýnist á töflunni.