132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:42]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í sumar kom eins og þruma úr heiðskíru lofti yfirlýsing frá hæstv. menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um að loka ætti Listdansskóla Íslands eftir þann starfsvetur sem nú er. Það verða að teljast afar vond vinnubrögð að leggja niður lífæð listdansins í menntakerfinu án þess að fyrir liggi hver framtíð námsins verður. Það fylgdi nefnilega ekki yfirlýsingunni.

Virðulegi forseti. Listdansskóli Íslands hefur gegnt mikilvægu hlutverki í menntun listdansara á Íslandi. Þangað geta dansarar framtíðarinnar sótt menntun frá unga aldri. Hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín hefur ekkert sagt þeim 170 ungu krökkum sem eru að læra listdans frá 9 ára aldri og upp í framhaldsskóla, sem hafa ákveðið að leggja listdansinn fyrir sig, hvert þeir geti sótt menntun sína á því sviði á næsta ári. Það er ömurleg staða. Þetta er vel metinn skóli á heimsvísu. Þetta er aðför að listnámi í landinu og því leggjum við til fjárveitingu til áframhaldandi reksturs Listdansskóla Íslands. Ég segi já.