132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:57]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er allt í lagi að hér komi fram að allt of stór hluti síðasta árs hefur farið í það hjá Mannréttindaskrifstofu Íslands að reyna að afla fjár til starfsemi sinnar en Mannréttindaskrifstofa Íslands er regnhlífarsamtök yfir ákveðinn hóp félaga, frjálsra félagasamtaka sem vinna á sviði mannréttindamála. Það er til háborinnar skammar hvernig ríkisstjórn Íslands hefur komið fram við þessa stofnun sem er systurstofnun sambærilegra stofnana í nágrannalöndum okkar sem heyra undir þjóðþingin þar. Sú framkoma sem Mannréttindaskrifstofan hefur þurft að þola frá hendi núverandi ríkisstjórnar er skammarleg og það er mál til komið að þingmenn ræði það í alvöru hvort við getum ekki látið Mannréttindaskrifstofuna heyra undir Alþingi sjálft.