132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:30]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að vaxtabótakerfið á undir högg að sækja um þessar mundir hjá hæstv. ríkisstjórn. Sjálfstæðismenn hafa lýst því yfir margir hverjir bæði í umræðum hér í gær og úti í samfélaginu að þeir vilji leggja þetta kerfi niður. Nú hafa hv. þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins hoppað á þann vagn með því að leggja til verulegar skerðingar á vaxtabótum á næsta ári.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þarna eru hv. þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins að koma í bakið á unga fólkinu sem þeir lofuðu öllu fögru og bættu umhverfi til reksturs og kaupa á húsnæði fyrir síðustu kosningar.

Virðulegi forseti. Það er skömm að þessu. Við í Samfylkingunni viljum standa vörð um hag unga fólksins og hag barnafjölskyldna í landinu. Við leggjum því til að veita fé til þess að vaxtabæturnar geti staðið óbreyttar á næsta ári. Nú á tímum himinhás húsnæðisverðs hefur það aldrei verið mikilvægara að hér verði greiddar fullar vaxtabætur.