132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:51]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er dregin til baka heimild ríkisstjórnarinnar til að selja varðskipið Óðin. Hugmyndir hafa verið um að gera hann að minjasafni þorskastríðsáranna.

Saga Landhelgisgæslunnar og ekki síður þau afrek sem unnin voru í þorskastríðinu við Breta er stórmerkilegur þáttur í sögu Íslands á 20. öld. Íslendingar öðluðust yfirráð yfir náttúruauðlindum sínum og gerðust brautryðjendur á alþjóðlegum vettvangi í baráttunni fyrir rétti strandríkja til fiskveiðilögsögu. Þessi barátta var háð annars vegar af embættismönnum og stjórnmálamönnum sem börðust með rökum á alþjóðaráðstefnum og samningafundum en hins vegar af áhöfnum varðskipanna sem þrátt fyrir erfiðar aðstæður stóðu uppi í hárinu á flota hennar hátignar með ævintýralegum og oft ótrúlegum hætti.

Lítill vafi er á því að skipið mundi draga að sér ferðamenn, ekki síst Breta sem vafalaust þætti þessi þáttur sögu þeirra gamla heimsveldis forvitnilegur. Saga þorskastríðanna má ekki gleymast. Ég segi já.