132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:04]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hafði ekki áttað mig á að það væri hæstv. fjármálaráðherra sem legði til að málinu væri vísað til 3. umr. Ég hélt að það væri virðulegur forseti og umræða af þessu tagi væri ekki vanabundin. En atkvæði okkar fellur auðvitað með því að vísa málinu í sinn lýðræðislega farveg eins og vera ber. Það felur ekki í sér neina efnislega afstöðu til málsins.

Hér hefur þegar komið fram hve illa er á málum haldið við framkvæmd fjárlaga, hvernig allt aðhald skortir í þetta frumvarp og hve mikið það eykur á misskiptinguna í samfélaginu. Það er ekki nema rétt eðlilegt, virðulegi forseti, að nýr hæstv. fjármálaráðherra sitji hér á ráðherrabekknum og öskri fram í hjá hverjum ræðumanninum á fætur öðrum og geti ekki haldið stillingu sinni í umræðunni vegna þess að hann veit sem er að af þessu frumvarpi er engin ástæða til að vera stoltur nýr fjármálaráðherra.