132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Ábyrgðasjóður launa.

351. mál
[12:19]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt sem fram kemur í máli hv. þingmanns að þarna er um að ræða tillögu um verulega hækkun þessa gjalds eða meira en tvöföldun. Hún er til komin, eins og ég rakti í fyrra máli mínu, af því að Ábyrgðasjóður launa hefur ekki staðið undir þeim kröfum sem til hans eru gerðar samkvæmt lögum.

Það er sömuleiðis rétt sem kom fram í vangaveltum hv. þingmanns að skýringin er fyrst og fremst sú að gjaldþrot voru meiri á þeim tíma sem liðinn er frá breytingu laga um sjóðinn en ráð var fyrir gert og útstreymið úr sjóðnum þar með sömuleiðis meira. Það er rétt að undirstrika það og árétta hér, hæstv. forseti, að um þessa miklu hækkun — við hv. þingmaður getum verið sammála um það — er samkomulag við atvinnurekendur og þeir gera sér fyllilega grein fyrir því að ekki er hægt að reka sjóðinn áfram með þeim hætti sem gert hefur verið af þessum sökum og þess vegna er þessi hækkun lögð til.