132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Ábyrgðasjóður launa.

351. mál
[12:53]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir orð hennar hér. Þingmaðurinn spyr í fyrsta lagi hvers vegna ekki sé gengið lengra í tillögu um hækkun gjaldsins. Auðvitað má alltaf velta fyrir sér, hæstv. forseti, hversu langt á að ganga við slíkar aðstæður. Þarna er um það að ræða að með frumvarpinu er gert ráð fyrir að hækkunin verði um 150% eða úr 0,04% í 0,1%. Um það náðist samkomulag við atvinnurekendur og með því að freista þess að ná jafnvægi í rekstri sjóðsins á tilteknum tíma eða á árinu 2011.

Ég ítreka að auðvitað hefði verið hægt að leggja til að þetta yrði gert hraðar en það var mat mitt, hæstv. forseti, að þarna væri hóflega langt gengið en engu að síður sæju menn til lands.

Hv. þingmaður spyr sömuleiðis og tvinnar saman rekstur Ábyrgðasjóðs launa og svo kennitöluflakk, þá ljótu iðju. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það er full ástæða til að fara sérstaklega yfir hvaða tengsl kunni að vera þarna á milli. Ég óskaði eftir því þegar sú úttekt lá fyrir sem ég greindi frá áðan í andsvari mínu við hv. þingmann að bæði dómsmálaráðherra og viðskiptaráðherra væru sendar þær skýrslur og við ættum þá viðræður á vettvangi þessara ráðuneyta um með hvaða hætti mætti reyna að taka á þessu máli með samræmdum hætti í þeim tilvikum sem þörf krefur. Ég tel mig því geta sagt, hæstv. forseti, og svarað hv. þingmanni með því að við erum vakandi fyrir þessu og förum yfir það sérstaklega.