132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Ábyrgðasjóður launa.

351. mál
[12:55]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hann svaraði að vísu ekki hvort allar þær tillögur sem nefnd á hans vegum, sem fjallaði um stöðu sjóðsins á sínum tíma, lagði til hefðu komist til framkvæmda og ég spyr þá hvað þar standi út af. Það var auðvitað full ástæða hjá hæstv. ráðherra að senda hæstv. dómsmálaráðherra og viðskiptaráðherra niðurstöðu þessarar nefndar og skýrslur og ábendingar sem þar komu fram og snerta þessi ráðuneyti sameiginlega. En hvað var gert í framhaldinu? Nú er töluvert síðan þessi úttekt fór fram og ráðherrunum, dómsmálaráðherra og viðskiptaráðherra, hafa verið sendar þessar skýrslur en fer fram einhver vinna á vegum þessara aðila til að skoða þetta mál?

Ég spyr af því að það er líka mikilvægt innlegg hjá okkur í efnahags- og viðskiptanefnd sem höfum reifað það að ástæða væri til að skoða málið og þá er mikilvægt að vita hvernig hæstv. ráðherra hefur fylgt því eftir, eftir að hann sendi þessa skýrslu til dómsmálaráðherra og viðskiptaráðherra. Ég tel að það þurfi eftirfylgni í þessu máli, annars liggja slíkar skýrslur ofan í skúffum ráðherranna og örugglega undir hælinn lagt hve mikið þær eru lesnar. Ég held að ráðherrarnir þurfi að hittast til að ræða þetta mál eða skipa vinnuhóp til að fara ofan í það til þess að sjá hvort ástæða sé til að bregðast við með einhverjum hætti. Það eru vísbendingar uppi eins og ég nefndi í ræðu minni, bæði úr nefnd ráðherra og í þeim tölum sem viðskiptaráðherra upplýsti á Alþingi að sé ærin ástæða til að taka á þessu máli. Ég spyr því um eftirfylgni ráðherra í þessu efni nánar en hann upplýsti í fyrra andsvari sínu.