132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Vátryggingasamningar.

344. mál
[13:43]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004. Frumvarpið er á þskj. 378 sem er 344. mál þingsins.

Frumvarp til laga um vátryggingarsamninga var samþykkt á 130. löggjafarþingi og birt sem lög nr. 30/2004. Var vátryggingafélögum ætlaður rúmur tími til að undirbúa sig fyrir gildistöku þeirra og koma þau til framkvæmda 1. janúar nk. Fyrir liggur að gera þarf nokkrar breytingar á lögunum og er brýnt að þær nái fram að ganga áður en lögin koma til framkvæmda. Um er að ræða leiðréttingar á tilvísunum milli ákvæða (3. gr. og 120. gr.), efnisbreytingar á ákvæðum í því skyni að gera skýrari greinarmun á milli svonefndra heilsutrygginga án uppsagnarréttar (sjúkdómatrygginga) annars vegar og hreinna áhættulíftrygginga hins vegar (85. gr. og 86. gr.) og loks árétting um rétt eftirlifandi maka til greiðslu vátryggingarfjárhæðar (100. gr.).

Mun ég, hæstv. forseti, fara nokkrum orðum um þær breytingar sem lagðar eru til á greinum 85, 86 og 100 og vík ég þá fyrst að nauðsyn þess að gera gleggri greinarmun á heilsutryggingum án uppsagnarréttar, þ.e. sjúkdómatryggingum og áhættulíftryggingum.

Í 61. gr. laganna segir að þegar rætt sé um líftryggingu í II. hluta laganna sé einnig átt við heilsutryggingu án uppsagnarréttar nema annað sé tekið fram. Vegna vandamála sem upp hafa komið m.a. í tengslum við öflun endurtryggingarverndar er talið nauðsynlegt að víkja frá þessari meginreglu víðar en lögin gera nú. Á það við um 85. gr. og 86. gr. laganna. Vegna heilsutrygginga án uppsagnarréttar vátryggingafélags er undir þær falla, svonefndar sjúkdómatryggingar, er talið nauðsynlegt að skerpa þann mun sem er á hreinum áhættulíftryggingum og sjúkdómatryggingum. Eiga mismunandi sjónarmið við um áhættumat í sjúkdómatryggingum og áhættulíftryggingum.

Breyting sú sem lögð er til á 86. gr. varðar samspil sjúkra- og sjúkdómatrygginga. Við samanburð við sambærilegar vátryggingar erlendis hefur komið í ljós að vandkvæðum er bundið að binda ábyrgðartakmörkun við sjúkratryggingar eingöngu eins og gildandi ákvæði gerir ráð fyrir.

Þá er rétt að fram komi að í sjúkdómatryggingu kann hið bótaskylda tilvik að vera aðgerð sem leiðir af sjúkdómi en ekki greining sjúkdóms sem slík. Því er nauðsynlegt að bæta við ákvæðið tilvísun til tjónsatvika en einskorða það ekki einvörðungu við sjúkdóminn sem slíkan.

Ég vík þá næst að þeim breytingum sem lagðar eru til á 100. gr. laganna. Samkvæmt lögum nr. 87/1996, um staðfesta samvist, geta tveir einstaklingar af sama kyni stofnað til staðfestrar samvistar. Þar er almennt gert ráð fyrir að staðfesting samvistar hafi sömu réttaráhrif og stofnun hjúskapar. Í lögum um vátryggingarsamninga kemur hugtakið maki víða fyrir. Er ágreiningslaust samanber lög um staðfesta samvist að hugtakið maki í lögum um vátryggingarsamninga taki almennt einnig til einstaklings í staðfestri samvist.

Í 100. gr. er fjallað um rétt til greiðslu bóta frá vátryggingafélagi þegar vátryggingartaki hefur ekki sjálfur ráðstafað vátryggingunni. Er þar í ýmsu horft til ákvæða erfðalaga sem fyrirmyndar m.a. varðandi réttindi maka. Í athugasemd við 2. mgr. 100. gr. segir hins vegar að orðið maki í 1. málsl. 2. mgr. 100. gr. taki „ekki til eftirlifandi samvistarmanns þótt til samvistar hafi verið stofnað samkvæmt lögum um það efni, nr. 87/1996.“

Að vonum hafa þessi ummæli í athugasemd orðið tilefni skoðanaskipta og nokkurs ágreinings. Hefur þetta atriði komið til skoðunar hjá forsætisráðuneytinu þar sem unnið er að því að nema úr lögum ákvæði er hafa að geyma mismun í garð samkynhneigðra. Til þess að taka af öll tvímæli um rétt eftirlifandi maka leggur frumvarp þetta til að breyting verði gerð á 1. málslið 2. mgr. 100. gr. Með því er áréttað að ummæli um réttindi eftirlifandi samvistarmanns í athugasemdum í frumvarpi til laga um vátryggingarsamninga skuli ekki hafa þýðingu við túlkun og framkvæmd laga nr. 30/2004. Skal það áréttað að þar sem hugtakið „maki“ kemur fyrir í lögum nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, tekur það einnig til einstaklinga í staðfestri samvist samkvæmt lögum nr. 87/1996.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.