132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Verslunaratvinna.

345. mál
[13:49]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingu á lögum um verslunaratvinnu vegna innleiðingar ákvæða í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/84/EB frá 27. september 2001, um rétt höfundar til þóknunar við endursölu frumgerðar listaverks. Tilskipunin var kynnt með þingsályktunartillögu utanríkisráðherra á 128. löggjafarþingi 2002–2003. Þar kom fram að breyta þyrfti ákvæðum um fylgiréttargjald í tvennum lögum hér á landi, framangreindum lögum um verslunaratvinnu vegna sölu listmuna á uppboði svo og höfundalögum vegna endursölu listaverka í atvinnuskyni. Menntamálaráðherra mun standa að gerð frumvarps um það efni. Breytt er ákvæðum í lögum um verslunaratvinnu þar sem kveðið er á um að leggja skuli 10% gjald á málverk, myndir og listmuni sem seldir eru á listmunauppboðum. Skal gjaldið renna til listamanna eða erfingja þeirra en til vara til starfslauna handa myndlistamönnum.

Með tilskipuninni sem tekin hefur verið upp í EES-rétt er fylgiréttargjald lækkað samkvæmt ákveðnum reglum úr 10% og allt niður í 0,25% á dýrustu verkunum. Rétt þykir að nýta heimild EES-gerðarinnar til að halda 10% gjaldi á þeim verkum sem seld eru fyrir fjárhæð undir 3.000 evrum, sem eru um 230 þús. kr. í dag. Síðan fer gjaldið lækkandi í fimm þrepum. Hámark er sett á fylgiréttargjaldið.

Ég vil taka fram að við upptöku 10% fylgiréttargjalds á listmunauppboðum á sínum tíma var brotið blað í hugverkarétti á Norðurlöndum. Þá var felldur niður 24,5% söluskattur en síðar 22% virðisaukaskattur vegna sölu á listmunauppboðum. Verð til kaupandans hefur þannig lækkað til muna þótt fylgiréttargjald hafi verið lagt á. Ákvæði frumvarpsins leiða til enn lægra verðs til kaupenda á listmunum sem seldir eru á listmunauppboðum. Ég vil varðandi nánari upplýsingar vísa til frumvarpsins. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að lögin hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.