132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:25]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í máli mínu áðan tel ég að einhver dæmi hafi verið um að ekki hafi verið nægilega hart gengið fram í þessum málum og heimildir ekki að fullu nýttar. Ég tel hins vegar, hæstv. forseti, að þar sé fyrst og fremst um að kenna ókunnugleika. Við erum að læra af reynslunni, menn eru að ganga harðar fram í þessum efnum núna en áður. Við sjáum sömuleiðis að uppi er málarekstur milli aðila, milli skattyfirvalda og einhverra þeirra fyrirtækja sem hér um ræðir. Ég tel því, hæstv. forseti, að þessi mál horfi til betri vegar. Ég ætla ekki að gerast dómari í máli einstakra manna, stofnana eða ráðherra og mun ekki gera. Ég tel hins vegar að þetta mál sem við erum hér að ræða, þ.e. frumvarp til laga um starfsemi starfsmannaleigna, sýni að ríkisstjórninni er full alvara með að taka á í þessu máli.