132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:50]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var í þingsal áðan og heyrði að verkalýðshreyfingin vildi fá einhverjar breytingar á þessu máli í upphafi og hugsanlega enn — ég skal ekki segja — m.a. Samiðn. Hér var sérstaklega dregið fram að Samiðn hefði sent bréf. Ég veit að hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson hefur fylgst með málefnum starfsmannaleigna um skeið, m.a. á vettvangi Evrópuráðsins þar sem hann hefur unnið sérstaklega að þeim málefnum.

En ég vil draga hérna skýrt fram að eins og málið er í pottinn búið þá er það samkomulagsmál og var hluti af því að afstýra því að hér væri allt í uppnámi á vinnumarkaði. Á sama tíma eigum við þingmenn að vinna eftir sannfæringu okkar og auðvitað gerum við það. En þegar um samkomulagsmál er að ræða er geysilega erfitt að breyta þeim af því ef opnað er á breytingar sem menn eru ekki sáttir um, allir aðilar málsins, þá mun það tefja mjög fyrir afgreiðslu mála. Sem formaður félagsmálanefndar vil ég því sérstaklega draga það fram að að mínu mati verður mjög erfitt að breyta þessu máli í meðförum félagsmálanefndar nema aðilar séu þokkalega sammála um það bæði þingmenn og líka aðilar vinnumarkaðarins, af því að þetta er samkomulagsmál.