132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[16:35]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé á öllu að það stefnir í mikið óefni innan stjórnarmeirihlutans. Hér kemur hv. þm. Ásta Möller og tekur undir með okkur í stjórnarandstöðunni um að að sjálfsögðu eigi hv. félagsmálanefnd að vinna faglega og hugsanlega leggja til breytingar á þessu frumvarpi. En formaður félagsmálanefndar telur að með því sé verið að steypa undan mikilvægum kjarasamningum. Ég ímynda mér því að þær stallsystur, hv. þingmenn Ásta Möller og Siv Friðleifsdóttir, lendi nú í miklum vanda við að gera þessi mál upp. En við í stjórnarandstöðunni munum leggja okkar að mörkum til þess að greiða úr því og koma á friði í stjórnarmeirihlutanum um þetta mál.

Ég vil hins vegar segja að ég er algjörlega sammála því sem hv. þm. Ásta Möller sagði áðan um 1. gr. sérstaklega. Ég er þeirrar skoðunar að ekki falli undir starfsmannaleigur, eða a.m.k. hef ég ekki talað um það með þeim hætti, það sem hv. þingmaður kallar útleigu og á vondum tungum heitir „outsourcing“. Ég er alveg sammála því.

Varðandi skilgreininguna sem kemur fram í 1. gr. hnaut ég um það, en gleymdi að geta þess í ræðu minni, að eins og jafnan er um þetta rætt og ég hef skilið verkalýðshreyfinguna þá er gert ráð fyrir að starfsmannaleiga útvegi tímabundið vinnuafl. Ég sé ekki betur en með því að skjóta inn í 1. gr. í þriðju línu orðinu „tímabundið“, þ.e. að það sé átt við þjónustufyrirtæki sem samkvæmt samningi leigir út starfsmenn sína gegn gjaldi til að sinna tímabundið störfum, þá megi ná utan um þetta. Mér sýnist það alla vega í fljótu bragði. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta orðalag sem er að finna á tveimur stöðum í frumvarpinu gæti valdið erfiðleikum.