132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[16:37]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mig nú hafa heyrt hv. þingmann Siv Friðleifsdóttur tala um það hér einmitt í andsvari og er hún bar af sér sakir fyrr í dag í umræðunni, að hún líti ekki svo á að þetta frumvarp sé meitlað í stein og að sjálfsagt sé að taka tillit til sjónarmiða sem koma þá fram í umræðunni, m.a. frá þingmönnum og frá aðilum vinnumarkaðarins og öðrum hagsmunaaðilum sem þetta mál varðar.

Ég er hins vegar einnig sammála hv. þingmanni um skilgreiningu á útvistun eða „outsourcing“. Ég lít ekki á það sem starfsmannaleigu. Hins vegar er alveg ljóst að einhver fín lína er þarna á milli starfsmannaleigu og útvistunar. Ég held að það sé bara rétt að taka þá umræðu og átta sig á hvorum megin hryggjar starfsemin er. Ég er tilbúin til þess að taka þátt í umræðu ef eftir því er leitað.

Ég held að það verði að vera alveg ljóst hvert gildissvið frumvarpsins er og laganna. Hins vegar er alveg ljóst á hvaða aðstæðum frumvarpinu er ætlað að taka. Ég vara við því, og gerði það í ræðu minni, að ákvæði sem eru almennt íþyngjandi eigi þá ekki við starfsemi sem samkvæmt mínum skilningi á að falla utan gildissviðs laganna. En það verður að vera alveg ljóst af því að línan er það fín hvorum megin hryggjar starfsemin lendir.