132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[17:29]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Komið er fram frumvarp um starfsmannaleigur og því ber að fagna. Starfsmannaleigur eru orðnar hluti af íslensku atvinnulífi og því nauðsynlegt að vernda kjör starfsmanna þeirra og erlendra farandverkamanna og vernda jafnframt þá kjarasamninga sem eru í gildi á íslenskum atvinnumarkaði.

Vinnulag starfsmannaleigna má hvorki grafa undan íslensku vinnuafli né íslenskum verkalýðsfélögum og íslenskum fyrirtækjum, t.d. með undirboðum í skjóli brota á íslenskum kjarasamningi eða jafnvel brota á lögum.

Ráðherra nefndi í upphafi að höfðað yrði til ábyrgðar fyrirtækja í landinu og jafnframt að enginn mundi hagnast fyrir rest á því að brjóta á kjarasamningum en deilur milli fyrirtækja, starfsmannaleigna og verkalýðsfélaga undanfarið segja okkur að lagasetning sé orðin nauðsynleg. Ekki er einungis hægt að treysta á ábyrgðartilfinningu stjórnenda fyrirtækja. Við munum taka þetta mál fyrir í félagsmálanefnd og að sjálfsögðu óska þar skriflegra umsagna og stefna að því að afgreiða frumvarpið fyrir jól, ef hægt er.

Frú forseti. Það eru nokkur atriði sem ég tel að skoða þurfi í umræðunni. Það er þá fyrst kannski varðandi 8. gr., um skriflega ráðningarsamninga, þar sem segir: „Starfsmannaleiga skal gera skriflega ráðningarsamninga við starfsmenn sína.“ Ég hefði talið heppilegra að þar kæmi jafnframt fram að skriflegu ráðningarsamningarnir þyrftu að uppfylla skilyrði tilskipunar nr. 91/553 frá Evrópusambandinu. Það er að vísu tekið fram í umsögninni að gert sé ráð fyrir að ráðningarsamningurinn fullnægi skilyrðum sem ég nefndi áðan, nr. 91/553, en ég tel heppilegra að kveða þar fastar að orði.

Í öðru lagi þurfa lögin jafnframt að kveða skýrar á um bann við mismunun, að notendafyrirtækin mismuni ekki starfsmönnum eftir því hvort þeir komi frá leigufyrirtæki eða ekki. Slíkt bann þarf að undirstrika skuldbindingargildi viðkomandi kjarasamninga.

Í þriðja lagi hefði ég viljað sjá kveðið fastar og skýrar á um ábyrgð notenda fyrirtækjanna, um ábyrgð fyrirtækja á Íslandi varðandi kröfur starfsmanna á vegum leigunnar og jafnframt á hendur leigunni.

Í fjórða lagi vantar ákvæði til að koma í veg fyrir að fyrirtæki sé heimilt að segja starfsmanni upp í þeim tilgangi að ráða hann síðan aftur í gegnum starfsmannaleigu.

Í fimmta lagi vantar ákvæði varðandi uppsögn fastra starfsmanna, að óheimilt sé að segja þeim upp í þeim tilgangi að ráða í staðinn annan í gegnum starfsmannaleigu. Miðað við allar þær deilur sem verið hafa undanfarið virðist ekki ástæða til annars en kveða skýrt og fast að orði til að fyrirbyggja áframhaldandi deilur. Eins og komið hefur fram hafa jafnframt verið uppi deilur um launatengd gjöld sem ber að skila til sveitarfélaga. Og hvað varðar þá aðila sem gert hafa athugasemdir, ASÍ, Samiðn og fleiri launþegasamtök, og verið að skipta sér af málinu þá ber okkur svo sannarlega að hlusta á þá þó ekki væri nema til að tryggja frið á íslenskum vinnumarkaði.