132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[17:33]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um starfsmannaleigur og ekki er annað hægt en að taka undir þau orð hv. þingmanna sem hafa talað á undan mér að hér sé um löngu tímabært frumvarp að ræða.

Það er vissulega til marks um ójafnvægið í veröldinni og misskiptingu auðsins að við skulum búa við það ástand sem raun ber vitni á Íslandi í dag. Ástæðan fyrir því að starfsmannaleigur eru til er sú að í okkar heimshluta þar sem nægir eru peningarnir til að framkvæma vantar vinnuafl. Launakröfur þeirra sem búa í fátækari heimshlutum eru allt aðrar en við búum við í hinum vestræna heimi. Það er í rauninni þörf hinna fátæku fyrir mat og fyrir framfærslu fjölskyldu sinnar sem býr til það ástand sem er til staðar hér á landi og við megum aldrei gleyma því að það er kjarni málsins. Ég verð að segja, frú forseti, að í fullkomnum heimi fyrirfinnast engar starfsmannaleigur. Í fullkomnum heimi, í mínum huga er það heimur sem byggir á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar í alvöru, eru samfélögin sjálfbær. Þá finna menn leiðir til að sinna þeim verkefnum sem viðkomandi samfélög þurfa á að halda án þess að riðla jafnvægi á milli hlutanna en í þeim heimi sem við búum í ríkir gríðarlegt ójafnvægi og gríðarlegur ójöfnuður. Sá ójöfnuður skapar möguleikana á því að starfsmannaleigur séu til staðar.

Það skiptir verulegu máli að standa vörð um aldalanga baráttu verkafólks í veröldinni. Við sem teljum okkur réttsýna borgara á Íslandi eigum að gera allt sem við getum, allt sem í okkar valdi stendur til að standa vörð um þá baráttu sem verkafólk hefur háð og þau réttindi sem verkafólk hefur uppskorið með aldalangri baráttu sinni. Tryggja þarf réttarstöðu launamanna, tryggja þarf kjör, öryggi og aðbúnað og ekki bara þeirra sem eru innlendir heldur allra sem þurfa einhverra hluta vegna að sækja störf um langan veg. Við þurfum að fá hingað til lands í hundraða tali verkamenn úr fátækari heimshlutum til að vinna störf sem við getum ekki mannað. Hvers vegna? Að hluta til vegna þess að við erum að fara út í verkefni sem hæfa ekki samfélagi okkar, verkefni á borð við Kárahnjúkavirkjun sem útheimtir gríðarlegt vinnuafl á framkvæmdatíma sem vitað var frá fyrsta degi, löngu áður en sú ákvörðun var tekin, að við mundum ekki geta annað með tilliti til vinnuafls, sem vitað var frá fyrsta degi að mundi ekki passa inn í samfélagsmunstur okkar, samfélagssnið eða hagkerfi. En við vitum öll hvernig sú ákvörðun var tekin og henni var mótmælt. Því var mótmælt í framhaldinu hversu augljóst það var þegar hinu lága tilboði frá ítalska verktakanum í Kárahnjúkavirkjun var tekið, meira að segja sjálfur hæstv. forsætisráðherra hvatti menn til að taka þessu lága tilboði. Hvers vegna? Vegna þess að að öðrum kosti væri óöruggt hvort ráðist yrði í verkið. Auðvitað spurðu menn á þeim tíma og spyrja enn: Vissu menn ekki allan tímann þegar hæstv. forsætisráðherra var að hvetja til þess að lága tilboðinu í Kárahnjúkavirkjun yrði tekið að tilboðið var svona lágt af því að ekki átti að greiða verkafólki full laun? Ég minnist þess að ekki liðu margir dagar þar til stjórnarformaður Landsvirkjunar fór yfir samningana með Impregilo og ákveðið var að hækka talsvert þóknunina til fyrirtækisins frá tilboðinu til að það mætti standa þannig að launakröfum yrði fullnægt. Þetta var náttúrlega til háborinnar skammar. Þetta var þvílíkt hneyksli að menn væru með galopin augun vitandi það hvers konar fyrirtæki var verið að bjóða hingað, vitandi það að hér yrðu félagsleg undirboð, bullandi félagsleg undirboð, til að koma þessum draumaverkefnum Framsóknarflokksins á. Nú situr Framsóknarflokkurinn í súpunni að reyna að leiðrétta það sem hægt er að leiðrétta í þessum efnum. Auðvitað stöndum við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs með Framsóknarflokknum í því að reyna að leiðrétta það sem hægt er. Það er ekki hægt annað. En þá viljum við líka ganga eins langt og hægt er. Ég fagna því að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir skuli hafa gefið þá yfirlýsingu í ræðu sinni rétt áðan að ef þyrfti að leiðrétta frumvarpið þá verði það gert. Ég treysti því jafnvel þó við þurfum að ylja þeim svolítið undir uggum hjá Samtökum atvinnulífsins. Ég krefst þess að Alþingi Íslendinga, löggjafarsamkundan og hv. þingmenn taki rétt verkafólksins fram yfir verktakana, fram yfir rétt þeirra sem búa til þetta ástand og bjóða verkafólkinu ósæmandi kjör.

Því hlýtur að verða svigrúm til þess að fara ofan í ákveðnar greinar frumvarpsins. Sérstaklega hafa verið nefndar 11. gr., sem er náttúrlega alveg til háborinnar skammar eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat um hvernig hún er orðuð, og sömuleiðis 3. gr. Kíkja þarf vel á hana því að í fréttum síðustu daga hefur komið fram, frá því að ljóst var að þetta frumvarp væri að líta dagsins ljós, að áhöld væru um hvort 3. gr. mundi nægja, þ.e. hvort það nægði að fulltrúi starfsmannaleigu verði til taks. Ég er með útskrift af frétt sem kom í Ríkisútvarpinu í gær, 27. nóvember, þar sem verið var að segja frá athugasemdum sem Samiðn gerir við frumvarpið. Þær athugasemdir snúa fyrst og fremst að ábyrgð notendafyrirtækjanna, þ.e. þeirra sem nýta sér þessa þjónustu. Finnbjörn Hermannsson, formaður Samiðnar, segir í fréttinni „að til að lágmarkslaun og réttindi starfsmanna séu tryggð verði ábyrgð notendafyrirtækja að vera skýr …“. Og hann saknar ákvæða um það í frumvarpinu. Þegar ég les þetta saman sýnist mér að það sé alveg réttmæt ábending að skoða þurfi ábyrgð notendafyrirtækjanna.

Það er auðvitað til skammar að notendafyrirtækin, þ.e. hin íslensku fyrirtæki sem nýta sér krafta hinna erlendu verkamanna, viti jafnvel upp á sig sökina að verið sé að bjóða ódýrara vinnuafl en lög og samningar kveða á um. Því hlýtur að verða að kalla þau notendafyrirtæki til ábyrgðar vegna þessa því að eins og lög gera ráð fyrir eru það slík fyrirtæki sem njóta þess hagnaðar, njóta ávaxtanna. Það eru þau sem uppskera á endanum. Þetta er sama sagan enn og aftur, hættan á að þeir sem valdið og fjármunina hafa nýti sér verkafólkið. Það er einu sinni enn endurtekið í nýrri mynd og við erum að sjá þetta mjög víða í heiminum. Og ef í hinum fullkomna heimi sem ég hóf mál mitt á væri hægt að búa þannig um hnútana að við þyrftum alls ekki á þessum fyrirbærum að halda væri það auðvitað eitthvað sem ég held að væri vert að skoða. Ég held að það megi alveg spyrja þeirra spurninga bæði í þessum sal, frú forseti, og eins hjá félagsmálanefnd: Er möguleiki að komast hjá því að hafa starfsmannaleigur á mála á Íslandi, hjá íslenskum fyrirtækjum? Eigum við einhvern möguleika á að komast undan — ég man ekki íslenska orðið fyrir „trend“ (Gripið fram í: Tilhneiging.) þessari tilhneigingu í veröldinni? Getum við komist undan henni? (SF: Er það ekki vont fyrir þá fátæku?) Mér finnst vel þess virði að skoða það. Er það ekki vont fyrir þá fátæku? spyr hv. formaður félagsmálanefndar. Auðvitað viljum við að sem flestir fátækir hafi laun fyrir störf sín, hafi störf og geti unnið, auðvitað. En það er spurning hvort við getum réttlætt það á þennan hátt. Eigum við ekki frekar að sinna skyldum okkar gagnvart fátæku fólki í veröldinni með því að sjá til þess að þeirra eigin samfélög geti útvegað þeim störf? Getur ekki verið að við séum að hlaupast undan ábyrgðinni á því að tryggja sjálfbærni samfélaganna úti í hinum fátæka heimi? Ég held að við séum með mjög stórt vandamál til skoðunar. Ég held að það sé sjálfsagt að við gerum okkur grein fyrir því og skoðum það eins djúpt og við mögulega getum og jafnvel þótt við höfum skamman tíma. Þess vegna spyr ég þeirrar spurningar. Er hægt að komast hjá því eða láta undan þessari tilhneigingu?

Frú forseti. Örlítið aftur um ábyrgð notendafyrirtækjanna. Finnbjörn Hermannsson, sem talað var við í fréttinni í Ríkisútvarpinu í gær og er formaður Samiðnar, segir í fréttinni að hann telji að það sé til lítils að starfsmannaleigur sem skráðar eru í útlöndum hafi fulltrúa hér eins og 3. gr. í frumvarpinu gerir ráð fyrir. Hann segir að ábyrgð þeirra sé of óljós samkvæmt skilgreiningunni í greininni og ákveðin hætta sé til staðar, t.d. ef viðkomandi fulltrúar þyrftu að tilkynna eitthvað, segjum birta stefnu, þá sé hætta á að viðkomandi geti horfið af landi brott, láti ekki sjá sig í nokkra mánuði og sama fyrirtæki, sama starfsmannaleiga geti síðan mætt einhverjum mánuðum síðar undir nýju nafni og með nýja kennitölu. Við verðum því að sjá til þess að hægt sé að byrgja fyrir slík mistök. Við megum ekki setja 3. gr. þannig í gegn að hún bjóði upp á að menn geti komist undan því að sæta ábyrgð. Ég held að skoða verði vel þau orð sem Finnbjörn Hermannsson hefur yfir í frétt Ríkisútvarpsins. Hann segir, með leyfi forseta:

„… ef í harðbakkann slær þá þurfum við einhverja ábyrga aðila sem eru með húsbóndavaldið en ekki bara einhverjir umboðsmenn. Og við þurfum alltaf á endanum að sækja til móðurfyrirtækisins og þó svo að við fengjum einhvern dóm hér á Íslandi þyrftum við að fá fullnustu hans í viðkomandi heimalandi“.

Þetta þarf að athuga í 3. gr. Finnbjörn Hermannsson segir líka reynsluna þá annars staðar frá, t.d. Norðurlöndunum, þar sem þessi háttur er hafður á að þegar umboðsmanni starfsmannaleigu hefur verið afhent stefna láti hann sig einfaldlega hverfa og síðan birtast þeir aftur innan skamms, komnir með nýja kennitölu og nýtt nafn.

Varðandi 4. gr. og tilkynningarskylduna verð ég að taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að afrit af þjónustusamningum og afrit af samningum hljóti að verða að hafa mikið vægi innan 4. gr. Það sé alveg ljóst að það sem hlýtur að skipta öllu máli sé að samningar liggi fyrir því það er lykillinn að þessu öllu saman, að kjör fólks séu uppi á borðinu, þau séu ljós og öllum kunn og séu ekki leyndarmál. Það verður að vera hægt að sannreyna á hvaða kjörum verið er að ráða fólkið og það hlýtur að vera algert grundvallaratriði. Tryggja þarf að 4. gr. sé þannig orðuð að hún tryggi þann rétt að verið sé að greiða eftir íslenskum kjarasamningum og ekki sé verið að veita neinn afslátt í þeim efnum.

Frú forseti. Eftir tilkomu Kárahnjúkavirkjunar höfum við orðið þess áskynja að verkalýðshreyfingin hefur vaknað til lífsins. Hún hefur vaknað til vitundar um hversu alvarlegt ástandið er. Í gangi er sérstakt átak sem hleypt var af stokkunum hjá ASÍ sl. vor þar sem menn berjast undir kjörorðinu eða slagorðinu: Einn réttur – ekkert svindl. Átakið sem ASÍ hefur hleypt af stokkunum er mjög athyglisvert. Þar sameinast menn undir merkjum ASÍ — kemur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon færandi hendi, ég er með úr gagnasafni Morgunblaðsins frétt um þetta átak Einn réttur – ekkert svindl á erlendu vinnuafli. Þar hafa menn sameinast undir merkjum ASÍ vegna þess að fólk er búið að sjá í hversu skelfilegri stöðu erlent vinnuafl er á Íslandi. Menn hafa séð með eigin augum hvernig ástandið er og þeir vilja aðstoða fólk við að ná rétti sínum.

Við höfum orðið vitni að því í fjölmiðlum aftur og aftur að Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, hefur komið í fjölmiðla og kvartað undan því að eftirlitsstofnanirnar fyrir austan sem eiga að sinna Kárahnjúkasvæðinu séu ekki í stakk búnar til að gera það. Oddur Friðriksson, aðaltrúnaðarmaður á virkjunarsvæðinu, hefur aftur og aftur komið í fjölmiðla, gert ákveðnar kröfur, kvartað undan því að sýslumaður fyrir austan og þeir sem eru þar á svæðinu nái ekki að annast þetta á þeim nótum sem eðlilegt sé. Stjórnvöld verða að viðurkenna ábyrgð sína í þessum efnum. Þau verða að sjá til þess að þær stofnanir og þau embætti sem eiga að þjónusta þetta svæði séu með þann mannafla sem þarf, séu með þann kraft í málinu sem þarf og sinni þessu. Það er algert grundvallaratriði að stjórnvöld hlaupist ekki undan ábyrgðinni. Við verðum því að standa með ASÍ og Samiðn og þeim sem hafa verið að vinna að því missirum saman að opna augu okkar. Við verðum að sýna að þessi samkunda hér, löggjafarsamkundan, ætlar að taka á málinu af myndugleika þannig að þær ásakanir sem stjórnvöld hafa vissulega orðið að sitja undir í þessum efnum séu hraktar til föðurhúsanna. Núna ætlum við að fara að breyta rétt. Þess vegna sé ég ekki annað en stjórnvöld verði að fara að ganga í lið með ASÍ og þeim sem standa að þessu átaki.

Þegar Grétar J. Þorsteinsson, forseti ASÍ, og forsvarsmenn flestra aðildarfélaga ASÍ kynntu fyrrgreint átak síðasta vor sagði hann, með leyfi forseta: „Allir tapa á félagslegum undirboðum og ólöglegri atvinnustarfsemi.“ Það gera allir, öll þjóðin tapar, við hér töpum. Við höfum því gríðarlega ábyrgð í þessu máli.

Þetta minnir mig á annað slagorð sem var notað eilítið fyrr í baráttunni af því að ég var að tala um Kárahnjúkavirkjun. Það var slagorð sem náttúruverndarsinnar komu sér upp og var svohljóðandi: „Það tapa allir á Kárahnjúkavirkjun.“ Mér finnst þetta vera eitt dæmið sem er að sýna og sanna það á hvern hátt við töpum á Kárahnjúkavirkjun, ekki bara á einn máta heldur allan máta og þetta er einn liðurinn í tapinu. Það er ekki aðeins að útlendingarnir séu hlunnfarnir um laun, starfskjör og aðbúnað, allt launafólk tapar á því að grafið sé undan samkeppnisstöðu annarra fyrirtækja, þeirra fyrirtækja sem fara eftir leikreglum á markaði. Samfélagið í heild tapar líka vegna þess að verið er að grafa undan velferðarkerfinu okkar.

Frú forseti. Mér þykir mjög miður að þetta ástand við Kárahnjúka skuli vera eins og það er. Ákveðin þáttaskil urðu í þessum málum, þó svo farið hafi verið að bera örlítið á að hér sæist erlent vinnuafl, t.d. í byggingariðnaði, þegar Kárahnjúkavirkjun var hleypt af stokkunum. Stjórnvöld voru vöruð við þessu. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem börðumst einarðlega gegn Kárahnjúkavirkjun töluðum um félagsleg undirboð í ræðum okkar löngu áður en gengið var til samninga við þýska verktakafyrirtækið sem virtist svo hafa á eftir sér langa slóð slíkrar sögu af félagslegum undirboðum í öðrum heimshlutum. Við töldum því ævinlega að stjórnvöld gengju að þessu með opin augu og vissu um hvað væri verið að ræða hér. Við erum að súpa seyðið af því núna og þurfum þá að ganga fram með oddi og egg og talsverðum krafti til að hægt verði að gera þær leiðréttingar sem gera þarf.

Gerðar hafa verið kannanir, a.m.k. lauslega, og ég held að fyrr á þessu ári hafi könnun verið gerð sem Samiðn stóð fyrir þar sem verið var að kanna umfang ólöglegs vinnuafls almennt í landinu. Út úr þeirri könnun kom áætlun um að a.m.k. 250 útlendingar væru að starfa við byggingariðnað á höfuðborgarsvæðinu án tilskilinna atvinnuleyfa. Við sjáum að þessi gátt sem opnaðist þegar Kárahnjúkavirkjun kom til sögunnar er til staðar. Við sjáum þetta í greinum sem við höfum kannski ekki einu sinni áttað okkur á að þetta yrði stundað. Því þarf að ganga vasklega til verks og ég treysti hv. formanni félagsmálanefndar Alþingis til að gera þær bragarbætur sem nauðsynlegar eru á frumvarpinu þannig að allir geti verið vissir um að við séum að taka á vandamálinu.