132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[18:18]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst svara hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hvað varðar lokaorð hennar, hvort ábyrgð fyrirtækjanna þurfi ekki að liggja skýrar fyrir út frá skattskyldu og slíku, þá tel ég, eins og kom fram í máli mínu fyrr í dag, að skyldur fyrirtækjanna í þeim efnum liggi alveg skýrt fyrir. Heimildir stjórnvalda liggja sömuleiðis skýrt fyrir.

Skattyfirvöld hafa verið að ganga harðar fram í þeim efnum en kannski í fyrstu, eins og ég hef sömuleiðis sagt hér í dag. Ég tel að þarna skorti ekki heimildir og þeim verði einfaldlega að beita og þá í ýtrasta skilningi.

Hv. þingmaður dregur í efa að rétt sé að fría notendafyrirtæki ábyrgð. Ég vil taka fram, hæstv. forseti, eins og ég hef gert hér í dag, að ég tel ekki að notendafyrirtækin beri ekki ábyrgð í þessu sambandi. Ég tel að þau beri samfélagslega ábyrgð. Ég hef ítrekað sagt það og hef höfðað til íslenskra fyrirtækja í þeim efnum vegna þess að ég tel og hef sannfæringu fyrir því, hæstv. forseti, að fyrirtækin sem brjóta gegn íslenskum lögum og íslenskum kjarasamningum í þessum efnum séu fá en þau sverta hins vegar þennan markað. Þau sverta orðspor íslensks atvinnulífs og stjórnendur þeirra bera vissulega samfélagslega ábyrgð. En að setja í lög tvöfalda ábyrgð á þessi fyrirtæki gagnvart þeim sem þeir kaupa þjónustuna af er að mínu viti fulllangt gengið.