132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Faggilding o.fl.

361. mál
[18:24]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um faggildingu o.fl. á þskj. 403 sem er 361. mál þingsins.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði sérstök lög um faggildingu, en nú eru ákvæði um faggildingu í lögum um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992.

Frá því að ákvæði um faggildingu voru fyrst sett í íslensk lög hefur orðið mikil þróun í löggjöf hérlendis og á sviði Evrópuréttar. Stjórnvöld jafnt sem viðskiptalífið nota faggildingu í sífellt meira mæli sem aðferð til að veita formlega viðurkenningu á hæfni aðila til að framkvæma verkefni sem lög, reglur eða innri gæðakerfi mæla fyrir um.

Að undanförnu hafa kröfur verið að aukast á alþjóðavettvangi, og ekki síst hjá Evrópusamtökum faggildingaraðila, um að tryggja verði að faggildingarstofur njóti óyggjandi trausts sem óháðir matsaðilar á hæfi þeirra sem sækja um faggildingu til hinna ýmsu verkefna. Á vettvangi faggildingarstofa í Evrópu hefur á undanförnum árum einnig verið mælst til þess að í hverju ríki sé aðeins einn aðili sem hafi með höndum slíka starfsemi en í nokkrum ríkjum í Evrópu hafa fleiri en einn aðili verið viðurkenndir til að starfa að faggildingu í hlutaðeigandi Evrópuríki.

Frá árinu 1992 hefur faggilding verið í höndum Löggildingarstofu og nú Neytendastofu. Neytendastofa notar faggildar stofur til að sinna tæknilegu eftirliti í sínu umboði á sviði rafmagnsöryggis, markaðseftirlits og lögmælifræði auk þess að reka kvörðunarþjónustu.

Af framangreindum ástæðum þykir því nauðsynlegt að faggilding verði stjórnunarlega og fjárhagslega skýrt aðgreind frá starfsemi Neytendastofu eða annarra eftirlitsstjórnvalda þar sem hætta kann að vera á hagsmunaárekstrum. Þannig sé tryggt að faggilding sé framkvæmd af óháðum þriðja aðila sem stundi ekki starfsemi sem hann faggildir aðra til að starfrækja.

Í frumvarpinu er lagt til að Einkaleyfastofu verði falið að annast faggildingu samkvæmt lögunum. Heppilegast er talið að starfsemin sé felld að annarri starfsemi á vegum undirstofnunar ráðuneytisins fremur en að mynduð sé sérstök stofnun eins til tveggja starfsmanna. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hafði umsjón með því hvernig þróun faggildingarsviðs verður, svo sem hvernig auðlindir og mannafli vegna starfseminnar verði tryggður og hvaða þjónustu Einkaleyfastofa er skuldbundin til að inna af hendi gagnvart ráðuneytinu, atvinnulífinu og almannahagsmunum. Í gegnum árlegan undirbúning fjárlaga hverju sinni og með hliðsjón af innheimtum tekjum faggildingarsviðs samkvæmt gjaldskrá verður einnig skilgreint í samvinnu við ráðuneytið hve stór hluti skuli í framtíðinni koma ár hvert úr ríkissjóði. Með þessu er tryggt faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði faggildingarsviðs Einkaleyfastofu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að faggilding verði að nokkru leyti sjálfbær en þó er þess ekki vænst að sértekjur geti staðið undir meira en sem nemur helmingi af rekstrarkostnaði. Gert er ráð fyrir að framlag úr ríkissjóði muni nema helmingi af rekstrarkostnaði miðað við núverandi umfang starfseminnar. Stefnt er að því að framlög ríkissjóðs minnki á næstu fimm til sex árum í samræmi við áætlanir um að fjöldi viðskiptavina muni aukast bæði vegna þróunar á eftirlitsstarfsemi hins opinbera svo og vegna þess að kröfur í viðskiptalífinu um faggildingu eru sífellt að aukast.

Hæstv. forseti. Frumvarpið skiptist í fjóra meginkafla. Í I. kafla er fjallað um gildissvið og skilgreiningar, í II. kafla um faggildingu, framkvæmd faggildingar o.fl., III. kafli fjallar um tilkynnta aðila og samræmismat og í IV. kafla eru ýmis ákvæði, um þagnarskyldu, viðurlög og gildistöku. Að svo stöddu tel ég ekki ástæðu til að rekja efni einstakra greina frumvarpsins. Ég vil þó taka fram að við samningu þess hafði ráðuneytið m.a. samráð við fjármálaráðuneytið, Einkaleyfastofu, Neytendastofu og sendi ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur drög að frumvarpinu í samræmi við ákvæði laga þar að lútandi. Í bréfi ráðgjafarnefndarinnar, dags. 29. september sl., segir að ekki séu gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins.

Eftirlitsnefndin leggur í erindi sínu áherslu á að við mat á kostnaði við framkvæmd laganna verði tekið fullt tillit til aukins mikilvægis faggildingarinnar og aukinna verkefna á því sviði.

Þá vil ég sérstaklega taka fram að við gerð frumvarpsins var höfð góð samvinna við fulltrúa úr atvinnulífinu, frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.