132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Faggilding o.fl.

361. mál
[18:47]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki dreg ég í efa að þeir sem eiga að vinna eftir þessu frumvarpi, verði það að lögum, séu vel mæltir á enska tungu og geti skoðað tilskipunina á ensku og farið yfir hana. Engu að síður ber okkur skylda til þess að setja þetta inn í íslenskan lagatexta og hann verður þá að vera þannig að hann sé aðgengilegur og skiljanlegur. Hingað til hefur ekki þurft að tiltaka sérstaklega hvað er tilnefning, tilnefndur aðili eða tilkynntur aðili, það hefur legið fyrir. En hér koma algjörlega nýjar skilgreiningar á orðum sem við höfum haft í íslensku máli og þekkjum ágætlega.

Mér finnst að við eigum að gera þær kröfur hér á hv. Alþingi að sá texti sem frá okkur fer sé skiljanlegur, að þeir sem eiga að vinna eftir þeim lagatexta þegar hann hefur verið samþykktur geti það, að hann sé öllum aðgengilegur og skiljanlegur. Það er þessi texti ekki.

Ég fagna því hins vegar að það verður skoðað hvað hin Norðurlöndin eru að gera á þessu sviði, ég hef aðeins verið að kíkja á það sjálf. Ég held að sú leið sem Danir fóru sé mjög skynsamleg en kannski rétt að bíða með að stíga þau skref sem þeir hafa stigið nú þegar. En ég sé ekki að faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði faggildingarsviðs Einkaleyfastofu sé tryggt með ríkisframlagi. Hingað til hafa framlög ríkisins á fjárlögum ekki verið nein trygging fyrir faglegu og fjárhagslegu sjálfstæði. Það hefur ekki verið þannig.