132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Faggilding o.fl.

361. mál
[18:51]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég get vel tekið undir að þetta frumvarp sé mikil hrákasmíð, þessi orð og þessar skilgreiningar. Því miður er það ekki einstakt að slík frumvörp komi frá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Þess er skemmst að minnast að ekki er langt síðan mælt var fyrir öðru frumvarpi, sem í raun er búið að mæla fyrir tvisvar, þar sem sömu orðalepparnir og skringilegheitin komu inn aftur og aftur. Það er kominn tími til þess, hæstv. ráðherra, að þessu verði breytt.

Við vorum að ræða hér um vatnalögin og þá var mannvirki skilgreint með þeim hætti að það væru einhverjar manngerðar tilfæringar, það voru mannvirki í því frumvarpi. Í þessu frumvarpi er prófun ákvörðun eins eða fleiri eiginleika viðfangs samræmismats samkvæmt verklagsreglu. Þetta er algjörlega óskiljanlegt og það er löngu orðið tímabært að taka á þessu.

Sú hrákasmíð sem er hér á blaði, og nefnist frumvarp til laga, leiðir hugann að öðru: Hvers vegna er hlutunum komið fyrir á þennan hátt í ráðuneytinu? Við fengum þau svör frá ráðherranum að löggildingarsviðið, sem á að fara inn í Einkaleyfastofuna nú, hafi lent inni á Neytendastofu og að allt hafi þetta verið gert á hraðferð. Það var undir því yfirskyni að það ætti að bæta eitthvað aðstöðu almennings. Samkeppniseftirlit var sett á fót og þessi Neytendastofa. Það virtist nú ekki takast betur en svo að við stöndum hér í þeim sporum að taka út úr því sem var hent inn á Neytendastofu fyrir nokkrum mánuðum.

Það leiðir hugann að því hve mikið mönnum lá á að brjóta Samkeppnisstofnun upp og helst að losna við forstjórann sem þar starfaði. Þá voru hin og þessi verkefni tínd út og stofnuninni skipt upp, í Neytendastofu og Samkeppniseftirlit. Síðan þarf að laga allt núna. Og lagfæringin er ekki betri en svo að við höfum hér frumvarp sem er mjög skringilegt. Þó að ég sé vanur að lesa í gegnum texta sem fjalla um eftirlit og opinbera stjórnsýslu á ég erfitt með að skilja margt af því sem þar stendur. Ég held að það verði mjög þungt í vöfum fyrir þá sem þurfa að starfa eftir þessum lögum að skilja hvað t.d. prófun er. Prófun merkir ákvörðun eins eða fleiri eiginleika viðfangs samræmismats samkvæmt verklagsreglu. Ég held að það verði erfitt að skilja þetta fyrir þann sem á að fara eftir þessum lögum og vinna eftir þeim.

Ég legg til að hæstv. ráðherra dragi þetta frumvarp einfaldlega til baka og komi með nýtt. Það er greinilegt að í öllum flýtinum sem fylgdi því þegar verið var að brjóta Samkeppnisstofnun upp lenti eitt og annað inni hjá Neytendastofu sem ekki á þar heima og búið er að setja yfirfrakka á Samkeppniseftirlitið, sérstök stjórn sem horfir yfir öxlina á forstjóranum. Síðan þarf að lagfæra þetta.

Í andsvörum nefndi hæstv. ráðherra að þessi einn eða tveir starfsmenn ættu að fylgjast með fjöldanum öllum af eftirlitsaðilum sem eiga að hafa eftirlit með mismunandi starfsemi í þjóðfélaginu. Til dæmis eiga þeir að votta að þeir sem starfa hjá aðalskoðun bifreiða geri það samkvæmt öruggri verklagsreglu. Þeir eiga einnig að faggilda umhverfisvottun. Það er mjög vítt starfssvið sem þessi einn til tveir eiga að fylgja eftir. Ég tel þetta mjög vafasamt vegna þess að það er ákveðin tilhneiging núna í lögum að færa meira og meira af eftirliti í einhverja faggildingu.

Í síðustu viku fjölluðum við um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þá kom inn einhver breyting og ég fékk aldrei fullnægjandi skýringu á því hjá hæstv. umhverfisráðherra hvers vegna verið væri að setja hana inn í lögin. Þá kom það upp úr dúrnum að það væri til að samræma eitthvað í sambandi við róluvelli, það var helsta skýringin. En ég tel að það sé mögulega önnur skýring á þessu. Það er verið að færa ákveðið eftirlit í hendurnar á faggiltum aðilum og það er í sjálfu sér allt í lagi. Það kemur fram í greinargerðinni að faggilding sé formleg viðurkenning til þess að geta sinnt trúnaðarstörfum á sviði opinbers eftirlits. Í sjálfu sér er það allt í lagi ef menn ganga að því vísu hvað það þýðir.

Þýðir það t.d. að um leið og eitthvert eftirlit er fært frá hinu opinbera og inn í einhverja faggilta stofu, eftirlitsstofu, að almenningur eigi þá ekki rétt á að sjá ákveðin gögn. Þetta skiptir verulega miklu máli, sérstaklega ef litið er til ýmissa mála á sviði réttar um neytendur. Eiga neytendur rétt á því að fá að sjá gögn sem varða öryggi matvæla? Þessari spurningu þurfum við að velta fyrir okkur.

Ég tel að þegar eftirlitið er fært í meira mæli inn í þessar skoðunarstofur, sem hafa þá vottun, sé verið að hefta aðgang almennings að ákveðnum gögnum. Það eiga menn að ræða með opnari hætti en nú er gert. Í því sambandi má spyrja hvort almenningur eigi rétt á að skoða þau gögn, eftirlitsskýrslur, sem skoðunarstofur skoða hjá fiskvinnslum? Ég efast um að svo sé. Hins vegar á almenningur ríkan rétt á að fá gögn sem snúa t.d. að heilbrigðiseftirliti. Sá er munurinn. Þegar verið er að færa eftirlitið inn í löggiltar skoðunarstofur verður að vera ljóst hvort verið er að hefta aðgang almennings að viðkomandi gögnum.

Menn verða líka að hafa í huga að þegar þetta eftirlit er komið í hendurnar á einkareknum skoðunarstofum þá þurfa þvingunarúrræði eftir sem áður að vera í höndum opinberra aðila. Menn verða að hugsa betur fyrir því hvernig ná á böndum utan um það.

En eins og áður segir hvað varðar allar þær skilgreiningar sem koma fram í 2. gr., þá hlýtur að vera hægt að gera þetta betur, frú forseti. Það er alveg með ólíkindum að bjóða upp á þetta.