132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:51]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér var að mestu leyti um gamalkunna ræðu að ræða hjá hv. þingmanni og ekki ástæða til að fara út í þá sálma.

Það var aðeins eitt atriði í ræðu hv. þingmanns sem er eiginlega alveg nauðsynlegt að enginn vafi leiki á hvað hv. þingmaður átti við. Það var þegar hann notaði orðin „skiptir engu máli“. Það mátti skilja þau annaðhvort svo að þessar 250 millj. sem fara í viðhald á Þjóðleikhúsinu skiptu engu máli eða að engu máli skipti hvort farið væri eftir fjárreiðulögum eða ekki. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hv. þingmaður taki af allan vafa um það. Ég trúi ekki að hv. þingmaður hafi átt við, eins og var hægt að skilja á máli hans, að það skipti engu máli hvað stendur í fjárreiðulögunum. Þannig er auðvitað mál með vexti, eins og rakið hefur verið hér margoft og hv. þingmaður á að kannast þokkalega við, að því miður hefur meiri hlutinn á Alþingi og ríkisstjórn ekki náð að framfylgja fjárreiðulögunum. Það er mjög gagnrýnisvert hvernig menn umgangast þau lög. Þess vegna trúi ég því ekki að hann vilji hunsa þau en í þessu samhengi var hægt að skilja orð hv. þingmanns þannig að það skipti bara engu máli hvernig menn umgengjust fjárreiðulög, bara ef niðurstaðan væri nógu góð.

Síðan kom mikil lýsing á því glæsilega ári sem við erum að upplifa. Það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að við höfum ekki séð annan eins afgang, enda var Síminn seldur á árinu. Skárra væri það nú hvort ekki væri afgangur.

Frú forseti. Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt að hv. þingmaður kveði skýrt upp úr með það að hann vilji ekki umgangast fjárreiðulögin þannig að það skipti bara engu máli hvað í þeim stendur.