132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:53]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt og skylt að verða við þessari áskorun. Það vita allir að það er nauðsynlegt að passa upp á viðhald Þjóðleikhússins. Það hefur drabbast niður í mörg ár og lengi og þessar 250 millj. sem varið er til viðhaldsins (Gripið fram í.) eru eflaust rétt ákvörðun.

Ég tók undir gagnrýni hv. þingmanns áðan og sagði að líklega væri það rétt hjá honum að fjárhæðin ætti frekar heima í fjárlögum en fjáraukalögum. Ég benti á að í eitt og eitt skipti gæti það hent virðulega þingmenn úr stjórnarandstöðunni að hafa rétt fyrir sér og þá er rétt að halda því til haga. Kannski hefur verið óvarlegt orðalag hjá mér að segja að það skipti ekki máli. Það skiptir ekki sköpum hvorum megin hryggjar þetta liggur, þessar 250 millj., því að afkoma á ríkissjóði er náttúrlega glæsileg eigi að síður.

Það er alveg hárrétt að að mínum dómi áttu þessir peningar frekar, eins og fjárreiðulögin eru, að tilheyra árinu 2006, a.m.k. stór hluti af þeim.