132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:58]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég minnist þess aldrei að hafa nokkurn tíma haldið nokkra tölu eða skrifað nokkurn einasta stafkrók þar sem ég hafi hælst yfir því hversu vel gengi með opinbera stjórnsýslu. Ég get ekki komið því fyrir mig að ég hafi nokkurn tíma tekið þátt í þeirri umræðu. Hins vegar hef ég oft staðið hér og gagnrýnt opinbera stjórnsýslu. Ég hef iðulega farið í gegnum það að við mættum gera mun betur. Ég hef oft gagnrýnt hina opinberu stjórnsýslu og sagt að þar séu of miklir peningar. Ég var að segja frá því rétt áðan. Hins vegar verða menn að gæta sín þegar þeir bera saman tölur um hið opinbera. Hið opinbera er, eins og hv. þingmaður sagði, ríki og sveitarfélög. Sveitarfélögin hafa á undanförnum árum aukið hlutdeild sína umtalsvert.

Ég hef haft áhyggjur af fjárreiðum sveitarfélaganna og hef margsinnis sagt það hér, virðulegur forseti. Tekjuaukning þeirra er að meðaltali aðeins hærri en ríkisins en útgjöld þeirra eru mun hærri og launaákvæði þeirra eru líka þó nokkuð umfram launaákvarðanir ríkisins. Það er því ástæða til að gera grein fyrir því að sveitarfélögin, mörg hver, þó að það séu náttúrlega undantekningar, fara óvarlega í peningamálum. Mjög óvarlega, því miður. Einstaka þeirra gera það ekki, sýna mikla ráðdeild, en meiri hlutinn sýnist mér gera það, sérstaklega þau sem fá miklar tekjur, þau sem eru á suðvesturhorninu.

Það er alrangt að ég hafi nokkurn tíma sagt að það væri ástæða til að hæla sér yfir stöðunni. Aldrei nokkurn tíma. Ég hef hins vegar oft haldið ræður um að það þyrfti að varast þetta, menn yrðu að fara varlega og vanda sig eins mikið og þeir gætu við meðferð opinberra peninga.