132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:03]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að staða sveitarfélaganna er misjöfn. Þau sveitarfélög sem hafa orðið fyrir mestum áföllum eru þau þar sem brestur hefur verið í atvinnulífinu, þar sem fólki hefur fækkað og tekjur hafa lækkað. Menn hafa verið að reyna að koma til móts við þau með auknum framlögum, verulega auknum framlögum í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Mér er til efs að það dugi. En það hefur verið reynt og þau sjónarmið eru uppi.

Við höfum oft bent á hvernig við eigum að reyna að vanda okkur í þessu og ástæða er til að fara í gegnum það aftur og aftur. Ekki er þó ástæða til að taka undir allar kröfur sem fram koma. Við megum ekki alltaf vera viðbúin því að segja já og amen við öllu sem fram kemur vegna þess að það þarf að gæta sín varðandi meðferð skattpeninganna.

Mér finnst hins vegar alveg óþarfi, virðulegur forseti, að hv. þingmaður spyrji mig um framkvæmdir fjárlaga, t.d. hvað varðar dómsmála- eða heilbrigðisráðuneyti. Ég get ekki svarað fyrir það, það eiga ráðherrarnir að gera. Ég er ekki með það á hreinu hver þróun lögregluþjónustu hefur verið á hinum ýmsu stöðum. Ég veit þó að í heild hefur ríkið ekki verið að draga úr þjónustu sinni, alls ekki. Ríkið hefur verið að auka þjónustu sína, gert það vegna þess að það er að fá auknar tekjur. Tekjuaukning ríkisins er heilmikil, svona svipuð og hjá sveitarfélögunum. Menn geta því verið þokkalega ánægðir með stöðuna. Við eigum að fagna því að staðan er góð og það hefur tekist vel upp með þessi ár. En svo geta komið verri tímar og þá skulum við vera viðbúin því.