132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum.

328. mál
[15:41]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hér er verið að ræða mikilvægt mál, frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum. Þetta er efnismikið frumvarp og þarna er komið inn á afar spennandi mál, svo sem höfundarétt, hönnunarrétt og vörumerkjarétt, félagamerkjarétt, einkaleyfarétt, yrkisrétt og síðast en ekki síst vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum. Þetta hljómar afskaplega spennandi. Hins vegar snertir þetta sem við erum að fjalla hér um grundvallaratriði og það þarf að skoða þetta mál afskaplega vel, að mínu mati, í allsherjarnefnd.

Nú við 1. umræðu langar mig að tæpa á nokkrum atriðum. Eins og kemur fram í frumvarpinu eru hugverkaréttindi samheiti þeirra eignarréttinda sem varða fyrst og fremst andleg sköpunarverk af einhverju tagi og brot gegn hugverkaréttindum felst í að einhver hagnýti sér vernduð hugverk heimildalaust. Eins og stendur í greinargerðinni eru algengustu brot gegn hugverkaréttindum ólögmætar eftirgerðir eða fjölfaldanir af tónlist, kvikmyndum og hugbúnaði. Þá má nefna ólögmætar merkingar á fatnaði og lyfjum með vernduðum vörumerkjum eða það sem einnig er oft nefnt eftirlíkingar.

Brot gegn ákvæðum sérlaga á sviði hugverkaréttar geta varðað refsingum eða skaðabótum. Er þá venjulega miðað við að þeim sem gerst hefur brotlegur gegn hugverkarétti verði gert að greiða bætur fyrir það tjón sem hlýst af og eftir atvikum endurgjald fyrir hagnýtingu þessara réttinda. Þá getur verið unnt að vernda hugverkarétt með lögbanni í samræmi við ákvæði laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Með frumvarpinu er, eins og hæstv. ráðherra gat réttilega um, verið að leggja til að heimilt verði að afla sönnunargagna með leit hjá þeim sem grunur leikur á að hafi brotið gegn þeim tilteknu hugverkaréttindum sem ég minntist hér áðan á. Ef við skoðum aðeins lengra inn í frumvarpið þá sjáum við að lagt er til að leit geti farið fram hjá þeim sem grunur leikur á að hafi brotið gegn tilteknum hugverkaréttindum og er þannig vikið frá grundvallarreglunni um friðhelgi einkalífs og heimilis. Við þurfum að skoða þetta afskaplega vel í allsherjarnefndinni, bæði 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en sá sáttmáli hefur lagagildi hér á landi. Ákveðin skilyrði í lögum þarf að uppfylla ef menn ætla að ganga á friðhelgi einkalífs, m.a. þarf þar dómsúrskurður að vera fyrir hendi. Við þurfum að ræða vel, að mínu mati, við fulltrúa frá Persónuvernd og Lögmannafélaginu og fleiri sérfræðinga hvað varðar persónuverndina. Við þurfum að skoða hvort þetta frumvarp sé hugsanlega að ganga of langt að einhverju leyti. Ég ætla ekki að fullyrða það hér en við þurfum að skoða það vel. Það kemur fram hjá frumvarpshöfundum að frumvarpið taki mið af þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands. En annars staðar kemur fram að ekki sé skylda að innleiða tilskipun Evrópusambandsins á þessu sviði í gegnum EES-samninginn. Þetta varð víst niðurstaða fastanefndar EFTA-ríkjanna. Eins og ég skil þetta þá er ekki skylda samkvæmt Evrópuréttinum að innleiða þessa tilskipun. Hins vegar hefur Ísland fullgilt svokallaðan TRIPS-samning og hann fylgir með í frumvarpinu sem er afskaplega ánægjulegt og er mjög upplýsandi að fá þann samning með í frumvarpinu. Hins vegar má spyrja hvort þetta frumvarp gangi að sumu leyti lengra en fyrrgreindur TRIPS-samningur. Því væri fróðlegt að vita frá hæstv. dómsmálaráðherra hvort hér sé gengið lengra en í þessum alþjóðasamningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem Ísland hefur fullgilt.

Það er einnig fróðlegt að vita í hvaða megindráttum þetta frumvarp er frábrugðið ESB-tilskipuninni sem okkur ber ekki skylda að innleiða samkvæmt niðurstöðu EFTA-nefndarinnar. Er hér gengið lengra en þörf krefur? Er gengið lengra en aðrar þjóðir hafa gert? Það væri fróðlegt að vita það ef hæstv. dómsmálaráðherra hefur það á takteinunum. Við sjáum að dómsmálaráðuneytið fór þess á leit árið 1998 að réttarfarsnefnd kannaði hvort nauðsynlegt væri að breyta lögum til að Ísland fullnægði þjóðréttarlegum skuldbindingum samkvæmt TRIPS-samningnum. Réttarfarsnefnd komst að þeirri niðurstöðu að til greina kæmi að styrkja þau úrræði sem rétthafi eigenda hugverkaréttinda hefði í íslenskri löggjöf. Réttarfarsnefnd segir einnig að til séu gögn sem benda til að brotatíðni sé há í þessum málaflokki og þau réttarfarsúrræði sem eru fyrir hendi séu ekki nægjanlega virk. Það er stundum sagt í þessu samhengi að maðurinn sé að tapa fimm styrjöldum og það er stríðið um fíkniefni, vopn, mansal, peningaþvætti og síðan og ekki síst stríðið um höfundarétt og hugverkaréttindi. Og þetta frumvarp lýtur að því að reyna að ná betri tökum á því síðastnefnda.

Rökin fyrir að hafa sérstök úrræði, eins og þetta frumvarp opnar á, má finna víða í frumvarpinu. Á bls. 11 þar sem verið er að rökstyðja það segir, með leyfi forseta:

„Við mat á því hvort þörf sé á sérstöku úrræði fyrir rétthafa hugverkaréttinda til að afla sönnunargagna vegna ætlaðra brota gegn slíkum réttindum er einnig til þess að líta að oft er unnt á svipstundu að eyða eða koma undan sönnunargögnum um brotið. Á það sérstaklega við um hugbúnað fyrir tölvur og önnur gögn sem vistuð eru rafrænt. Þannig stendur rétthafi gjarnan höllum fæti gagnvart þeim sem brotið hefur gegn réttindum hans og valdið honum tjóni. Því er rétt að löggjöfin taki mið af þessu og sé hagað þannig að gætt sé að sérstöku eðli þessara mála svo komið verði í veg fyrir að rétthafi verði fyrir réttarspjöllum sem hætt er við að óbreyttum lögum.“

Þetta þurfum við að sjálfsögðu að skoða mjög vel. Það hefur heyrst í umræðunni að hér sé verið að opna á svokallaða borgaralega húsleit og það má leiða líkur að því að við séum að fara yfir ákveðin mörk hvað það varðar sem eru ekki samanburðarhæf við þau úrræði sem við höfum í opinberu réttarfari. Það er hugsanleg að þetta frumvarp sé of víðtækt. Við sjáum að t.d. í 4. gr., um sannanir, stendur, með leyfi forseta:

„Sönnunar verður aflað á stað sem gerðarþoli hefur umráð yfir með athugun á öllum þeim gögnum og tækjum sem haft geta þýðingu við mat á því hvort og í hvaða mæli brotið hafi verið gegn þeim hugverkaréttindum sem getur í 1. gr. Nær könnunin meðal annars til söluvöru, véla og framleiðslutækja, bókhaldsgagna, pöntunarseðla, kynningarefnis, tölvugagna og hugbúnaðar.“

Við sjáum í greinargerðinni með 4. gr. að þar er fjallað um þetta með ítarlegri hætti. Við sjáum einnig að 3. gr. er afskaplega athyglisverð og þá ekki síst 1. mgr. Það er betra að skoða það í greinargerðinni sjálfri, með leyfi forseta:

„Nú gerir sá sem telur sig rétthafa hugverkaréttinda er getur í 1. gr. eða sá sem lögum samkvæmt hefur heimild til að hagnýta þau réttindi sennilegt að einhver hafi brotið gegn þeim réttindum ...“

Miðað er við að gerðarbeiðandi geti ekki eingöngu verið rétthafi heldur einnig sá sem hefur heimild til að nýta sér þessi réttindi, svo sem nytjaleyfishafi, samanber ákveðin lög og greinar. Þá er gert ráð fyrir að gerðarbeiðandi geti beint kröfu sinni að hverjum þeim sem nýtur aðildarhæfis, samanber lög um meðferð einkamála. Engar takmarkanir eru gerðar í þeim efnum. Þannig getur gerðarþoli verið einstaklingur, félag, eða stofnun, þar með talið stofnanir ríkis og sveitarfélaga.

Við höfum heyrt þær raddir að hér sé verið að opna á einhvers konar borgaralega húsleit. En það er fróðlegt að vita hvort okkar þjóðréttarlegu skuldbindingar gera það að verkum að við þurfum að fara þessa leið og hvort við séum að ganga lengra en aðrar þjóðir. Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur um það hérna við 1. umræðu.

En að lokum langar mig að minnast á 2. mgr. 6. gr. sem er athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Nú leikur hætta á að sönnunargögnum verði komið undan, þeim eytt eða breytt eða að dráttur vegna tilkynningar geti valdið réttarspjöllum og er þá heimilt eftir rökstuddri beiðni gerðarbeiðanda að víkja frá skyldu skv. 1. mgr. til að tilkynna gerðarþola um þinghaldið.“

Hér er verið að opna á frávik frá meginreglum, að viðkomandi viti um þinghald sem snertir hagsmuni hans og beint er gegn honum. Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort þetta sé t.d. í ESB-tilskipuninni. Í greinargerðinni er vísað í að þetta sé hluti af TRIPS-samningnum en það er fróðlegt að vita hvort Evrópuþjóðirnar ganga svona langt. En í greinargerðinni stendur um þessa grein að í 2. mgr. sé að finna heimild til að víkja frá skyldum til að tilkynna gerðardómi um þingfestingu málsins. Þetta er alveg nýtt að mínu mati og talsvert langt er gengið varðandi þá meginreglu að viðkomandi einstaklingur viti að verið sé að þingfesta mál sem varðar hagsmuni hans. En í greinargerðinni stendur, með leyfi forseta:

„Verður það gert eftir rökstuddri beiðni gerðarbeiðanda ef hætta leikur á að sönnunargögnum verði komið undan, þeim eytt eða breytt eða dráttur vegna tilkynningar geti valdið réttarspjöllum fyrir gerðarbeiðanda.“

En aðeins fyrir neðan stendur:

„Með hliðsjón af því að oft er unnt á svipstundu að eyða eða koma undan sönnunargögnum um ætlað brot gegn hugverkaréttindum má gera ráð fyrir að þessari heimild verði beitt í allnokkrum mæli.“

Hér er hæstv. dómsmálaráðherra að segja að þessari heimild verði beitt í allnokkrum mæli og hann mun hugsanlega segja, eðli málsins samkvæmt, að hér sé á ferðinni hugsanlegt brot sem auðvelt er að afmá eða eyða. En við þurfum auðvitað alltaf í svona málum að gæta okkur á hvort við séum að virða meðalhófsregluna. Hvort við séum að ganga of langt. Hvort hægt sé að ná fram sömu markmiðum með vægari leiðum. En þetta og margt annað í þessu frumvarpi munum við að sjálfsögðu skoða í hv. allsherjarnefnd og fá á okkar fund þá gesti sem við teljum nauðsynlegt. Þetta er mikilvægt málefni að mínu mati. Þetta snertir hagsmuni margra. Þetta getur snert almenning í heild sinni hvað varðar þessi nýju úrræði, m.a. í 3., 4. og 6. gr., og þetta þurfum við að skoða í rólegheitum sem fyrst að mínu mati.