132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum.

328. mál
[15:53]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og spurningar. Ég vil vekja athygli á því að hér er um að ræða frumvarp sem samið er af nefnd sem ég skipaði og í áttu sæti Benedikt Bogason, dómstjóri og lektor við lagadeild Háskóla Íslands, Borghildur Erlingsdóttir, lögfræðingur frá Einkaleyfastofu, sem var tilnefnd af iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, og Jón Vilberg Guðjónsson, lögfræðingur hjá menntamálaráðuneyti, tilnefndur af því ráðuneyti. Ritari nefndarinnar var Ásgerður Ragnarsdóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneyti.

Hv. þingmaður hélt því fram að þetta frumvarp gengi lengra en skylt væri samkvæmt þjóðréttarlegum skuldbindingum. Ég átta mig nú ekki almennilega á því hvernig þingmaðurinn kemst að þeirri niðurstöðu miðað við efni frumvarpsins og það sem segir í greinargerðinni. En það er alveg rétt að það er ekki EES-skuldbinding að flytja frumvarp af þessum toga og frumvarpið byggist að verulegu leyti á skuldbindingum okkar og að öllu leyti samkvæmt svokölluðum TRIPS-samningi og er flutt til að fullnægja þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem við gengumst undir með þeim samningi. Og eins og segir hér í greinargerðinni, á bls. 11, með leyfi hæstv. forseta:

„Að virtu því sem hér hefur verið rakið skortir nokkuð á að fyrir hendi séu nægjanlega trygg og skilvirk úrræði fyrir rétthafa hugverkaréttinda til að verja hagsmuni sína og afla sönnunargagna vegna ætlaðra brota gegn slíkum rétti. Því leikur í öllu falli vafi á hvort Ísland fullnægi þeirri þjóðréttarlegu skuldbindingu sem leiðir af b-lið 1. mgr. 50. gr. TRIPS-samningsins um að fyrir hendi séu tafarlausar og skilvirkar ráðstafanir til bráðabirgða til að varðveita sönnunargögn er tengjast meintu broti gegn hugverkaréttindum. Þótt hér verði ekki fullyrt að löggjöfin sé að þessu leyti í ósamræmi við alþjóðasamning sem Ísland hefur gengist undir er ástæða til að taka af allan vafa í þeim efnum. Má í því sambandi nefna að á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar var fjallað um hvort löggjöf Danmerkur og Svíþjóðar, sem var í öllum meginatriðum hliðstæð við gildandi íslensk lög að þessu leyti, fullnægði ákvæðum TRIPS-samningsins. Af þessu tilefni var dönskum lögum breytt með lögum nr. 809/2001 og nýjum kafla 57 a bætt við dönsku réttarfarslögin (Retsplejeloven) en þar er að finna úrræði á einkaréttarlegum grundvelli til að afla sönnunargagna vegna brota gegn hugverkaréttindum. Einnig var lögum breytt í Svíþjóð 1. janúar 1999 á þann veg að mæla fyrir um heimild til öflunar sönnunargagna í ýmsum lögum á sviði hugverkaréttar. Þá tóku gildi 1. maí 2000 sérstök lög um þetta efni í Finnlandi. Loks var gerð viðeigandi breyting á norsku réttarfarslögunum (tvistemålsloven) með lögum nr. 49/2004 til að fullnægja skuldbindingum samkvæmt TRIPS-samningnum.“

Við erum því hér að þessu leyti að feta í fótspor annarra sem hafa gerst aðilar að TRIPS-samningnum og hafa haft svipaða löggjöf og við. Hér er þetta gert í sérstökum lagabálki og er mjög ítarlega og vel unnið og greinargerðin mjög vel úr garði gerð. En það er ekki að ástæðulausu sem þetta er gert. Og ég minni á það sem segir í greinargerðinni á bls. 9 og ég þekkti það vel sem menntamálaráðherra á þeim tíma, og þar segir:

„Þess má þó geta að ríkisendurskoðanda var falið í tilefni af samkomulagi ríkisstjórnarinnar og Microsoft-tölvufyrirtækisins frá 20. janúar 1999 að kanna lögmæti hugbúnaðar hjá ríkisaðilum. Í skýrslu embættisins frá desember 1999 kom fram að 59% alls hugbúnaðar sem könnunin tók til reyndist verða ólögmætur eða að lögmæti hans var óþekkt.“

Þetta er mjög alvarleg staðreynd og það er þetta sem við erum að takast á við með þessu frumvarpi að hér séu fyrir hendi nauðsynleg úrræði til þess að unnt sé að bregðast við málum sem þessum. Og í raun og veru tel ég að þetta sé ákveðinn blettur á íslenska upplýsingasamfélaginu að staðið sé að málum eins og kom fram í þessari athugun Ríkisendurskoðunar. Það er eina ítarlega rannsóknin sem hefur verið gerð á þessu sviði og hún náði til ríkisaðila, eins og sagt er, og hefði mátt ætla að þeir aðilar mundu gæta sín betur en aðrir jafnvel í þessu efni.

Hv. þingmaður vék að því sem segir í 2. mgr. 6. gr., og nefndi réttilega að þar er um óvenjulega heimild að ræða. En hann lét þess ekki getið að þetta er ekki einstæð heimild. Því eins og segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Í 3. mgr. 21. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, er að finna hliðstæða heimild af sambærilegu tilefni til að víkja frá skyldu til að tilkynna gerðarþola um hvenær aðför hjá honum muni byrja.“

Þannig að við erum ekki hér í þessu frumvarpi að búa til neina nýja réttarreglu. Hins vegar erum við að taka upp svipaða aðferð við rannsókn þessara mála eða athugun á þessu eins og höfð er uppi þegar um aðför er að ræða. Þannig að það er ástæða til að vekja athygli þingmanna á þessu.

En ég tek undir með hv. þingmanni, það er mjög æskilegt að allsherjarnefnd fari rækilega yfir þetta. Ráðuneytið sendi þetta mál ekki til umsagnar. Ég ákvað að taka það beint frá nefndinni sem samdi frumvarpið og leggja það fram hér á Alþingi og hafa umræður um það hér í trausti þess og vitneskju þess að allsherjarnefnd leggur sig mjög fram um nákvæma yfirferð á öllum frumvörpum sem fyrir hana koma, ekki síst þegar um nýmæli er að ræða eins og þetta. Þannig að ég legg traust mitt á að í allsherjarnefnd ræði menn þetta við sérfróða aðila aðra en þá sem komu að gerð frumvarpsins og síðan megi takast samkomulag um að gera þetta sem best úr garði þannig að við höfum þau tæki hér á landi eins og annars staðar til að þvo þann blett af okkur að hér sé með ólögmætum hætti verið að nota of mikið af hugverkum.