132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum.

328. mál
[16:00]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir greinargóð svör. Mig langar aðeins að bæta við einni spurningu: Hvernig verður meðferð þeirra upplýsinga háttað sem t.d. lúta að annarri refsiverðri háttsemi sem kemst á yfirborðið við slíka leit?

Við sjáum að sagt er í 3. mgr. 4. gr., með leyfi forseta:

„Sönnunar verður ekki aflað með gögnum sem hafa að geyma upplýsingar sem óheimilt væri að gefa vitnaskýrslu um í einkamáli fyrir dómi.“

Mig langar aðeins að átta mig á því í ljósi þess að slík leit getur verið víðtæk og náð til ýmissa gagna og tækja viðkomandi einstaklings. Hvernig verður meðferð og framhald málsins komi þar til t.d. einhverjar upplýsingar sem lúta ekki beint að hagsmunum gerðarbeiðanda, heldur t.d. öðrum hagsmunum og þá jafnvel refsiverðum atriðum? Hvað ef eitthvað meira kemur í ljós við leitina heldur en lýtur einmitt að hagsmunum gerðarbeiðanda? Fer það þá hefðbundinn farveg til lögreglunnar eða er einhver takmörkun á notkun slíkra upplýsinga að mati hæstv. dómsmálaráðherra?